Handbolti

Ágúst snýr aftur sem þjálfari kvennaliðs Vals

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Jóhannsson.
Ágúst Jóhannsson. Vísir/Pjetur
Ágúst Jóhannsson er tekinn við kvennaliði Vals og mun stýra liðinu í Olís-deild kvenna á komandi tímabili. Þetta kemur fram á fésbókarsíðu Valsmanna.

Ágúst tekur við starfi Alfreðs Finnssonar sem var látinn fara rétt fyrir lok tímabilsins en þær Sigurlaug Rúnarsdóttir og Berglind Íris Hansdóttir stýrði Valsliðinu í síðustu leikjunum.

Ágúst missti sjálfur starfið sitt á dögunum þegar meistaraflokkur karla hjá KR var lagður niður en hann hafði komið KR-liðinu upp í Olís-deildina í vetur. Það varð síðan ekkert að því að KR-liðið spilaði í deildinni vegna aðstöðuleysis í KR-húsinu en eftir viðræður við stjórn félagsins var meistaraflokkurinn lagur niður.

Ágúst hefur tæplega tuttugu ára þjálfarareynslu í meistaraflokkum beggja kynja, bæði hér á landi sem og erlendis. Ágúst var einnig landsliðsþjálfari kvenna til margra ára og stýrði liðinu meðal annars á HM í Brasilíu árið 2011 og EM í Serbíu árið 2012.

„Auk þess að þjálfa meistaraflokkinn mun Ágúst styðja við ungmennalið félagsins sem stefnt er að því að senda til keppni annað árið í röð. Jafnframt mun Ágúst styðja við metnaðarfullt starf handknattleiksdeildar í kvennaflokkum félagsins,“ segir í frétt um Ágúst á fésbókarsíðu handboltans í Vals.

Þetta er eins og áður sagði ekki í fyrsta sinn sem Ágúst þjálfar kvennalið Vals í handbolta því hann þjálfaði liðið einnig á árunum 1999 til 2002 og gerði liðið meðal annars að bikarmeisturum árið 2000.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×