Handbolti

Ágúst: Of margar sem spiluðu undir getu í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst ásamt Einari Jónssyni, aðstoðarmanni sínum.
Ágúst ásamt Einari Jónssyni, aðstoðarmanni sínum. vísir/valli
Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska landsliðsins í handbolta, var að vonum vonsvikinn með 10 marka tap, 27-17, fyrir Frökkum í undankeppni EM 2016 í Frakklandi í dag.

„Það eru gríðarleg vonbrigði hvernig við spiluðum úr okkar málum,“ sagði Ágúst þegar Vísir heyrði í honum hljóðið eftir leikinn.

„Fyrirfram var kannski vitað að Frakkland á útivelli yrði erfiðasti leikurinn enda Frakkar með heimsklassa lið og eitt af bestu liðum í heimi. Við vissum að þetta yrði erfitt en hvernig við töpuðum leiknum og gáfum eftir í seinni hálfleik eru vonbrigði.“

Íslenska liðið spilaði flotta vörn í fyrri hálfleik og hélt Frökkum í aðeins 11 mörkum skoruðum. Sóknarleikurinn var hins vegar slakur eins og átta mörk skoruð í fyrri hálfleik gefa til kynna.

„Varnarleikurinn í fyrri hálfleik og var mjög góður og við vorum kannski óheppnar að vera þremur mörkum undir í hálfleik. Við klikkum á sex upplögðum marktækifærum, sem var dýrt þar sem það voru ekki svo margar sóknir í fyrri hálfleiknum.

„En því miður vantaði kraft í okkur í seinni hálfleiknum og það voru of margir leikmenn sem voru að spila undir getu hjá okkur í dag,“ sagði Ágúst. Meðal lykilmanna Íslands sem náðu sér ekki á strik í dag var Florentina Stanciu en að sögn Ágústs hefur markvörðurinn glímt við veikindi undanfarna daga.

Íslenska liðið flýgur heim á morgun og mætir svo Þýskalandi í Vodafone-höllinni á sunnudaginn, í öðrum leik sínum í undankeppninni. Ágúst segir að íslenska liðið þurfi að spila betri sóknarleik og fá framlag frá fleiri leikmönnum gegn Þýskalandi.

„Við þurfum að vera betri sóknarlega og fá framlag frá fleirum í sókninni. Við þurfum að vera ákveðnari og láta boltann ganga betur en það vantaði flæði í okkar leik í dag. Ef við náum að laga þetta á ég von á því að við fáum hörkuleik gegn Þýskalandi á sunnudaginn,“ sagði Ágúst sem segir þýska liðið öflugt.

„Þjóðverjar unnu Sviss með einhverjum 10 mörkum í gær. Þær þýsku eru mjög hávaxnar og spila sterka 6-0 vörn. Þær eru álíka sterkar og Frakkarnir en spila öðruvísi handbolta og eru ekki jafn sterkar maður á móti manni,“ sagði Ágúst að endingu en leikurinn gegn Þýskalandi á sunnudaginn hefst klukkan 16:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×