Innlent

Áfyllingin kom ekki í veg fyrir bætur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Konan ók Gullinbrú í norðurátt en beygði inn á Fjallkonuveg til að ná í bensín. Svo var planið að aka aftur norður Gullinbrú en hún lenti í árekstri á bensínstöðinni.
Konan ók Gullinbrú í norðurátt en beygði inn á Fjallkonuveg til að ná í bensín. Svo var planið að aka aftur norður Gullinbrú en hún lenti í árekstri á bensínstöðinni. Vísir/Loftmyndir.
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að greiða skuli greiða heilbrigðisstarfsmanni á Landspítalanum tæplega 3,6 milljónir króna í bætur vegna miska og örorku sem konan varð fyrir á leið sinni heim úr vinnu í október 2012.

Deilt var um hvort hún gefði verið á „eðlilegri leið“ milli vinnustaðar og heimilis þegar slysið varð en konan kom við á bensínstöð Olís við Fjallkonuveg á leið sinni heim á leið. Ætlaði hún að taka bensín en hún sagðist hafa verið að verða bensínlaus.

Þar bakkaði hins vegar ökumaður bifreið á hana og var áreksturinn nokkuð harður með þeim afleiðingum að konan hlaut 18 prósent varanlegan miska og 15 prósent varanlega örorku.

Lögmaður ríkisins vildi meina að með því að stoppa og taka bensín hefði hún verið að sinna einkaerindum og ekki lengur hægt að fallast á að hún væri á beinni leið frá vinnu og heim til sín.

Hæstiréttur, líkt og héraðsdómur, komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það hafi verið „nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í akstri bifreiðarinnar frá vinnustað að heimili stefndu að kaupa eldsneyti á bifreiðina“ þar sem bifreið hennar hafi verið eldsneytislítil.

Var því fallist á að ríkið þyrfti að greiða konunni 3,6 milljónir króna í bætur auk þess sem að ríkið þarf að greiða konunni 600 þúsund krónur í málskostnað.

Sjá má dóm Hæstaréttar hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×