Viðskipti innlent

Afurðaverð hækkar en kjötið selst ekki

Sveinn Arnarsson skrifar
Formaður sauðfjárbænda segir að Íslendingar missi af gullnu tækifæri með því að halda lambakjöti ekki meira að erlendum ferðamönnum.
Formaður sauðfjárbænda segir að Íslendingar missi af gullnu tækifæri með því að halda lambakjöti ekki meira að erlendum ferðamönnum. Vísir/Pjetur
Sauðfjárbændur fá 2,8 prósenta hækkun á afurðaverði í þessari sláturtíð miðað við sláturtíðina í fyrra. Afurðastöðvar hafa hver á fætur annarri gefið frá sér afurðaverð sitt til bænda og eru þær allar á svipuðum nótum.

Bændur fá þar af leiðandi hækkun á verði þrátt fyrir að óselt lambakjöt frá síðustu sláturtíð nemi um tvö þúsund tonnum.

Árlega eru um 9.900 tonn af kindakjöti framleidd á Íslandi. Sigurður Eyþórsson hjá Bændasamtökunum segir að þriðjungur kjötsins sé fluttur út, eða rétt tæp 3.500 tonn. Innlend neysla á kindakjöti er því nú um 4.600 tonn á ári, eða næstum helmingur þess sem framleitt er á landinu.

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Félags sauðfjárbænda, telur afurðaverðið sem bændur fá í dag vera of lágt ef hlutirnir eru grandskoðaðir.

„Ef við skoðum hvað kostar að framleiða lambakjöt í dag, með öllum framleiðslukostnaði, þá er verðið til bænda mjög lágt og þyrfti að vera hærra. Þú getur keypt lambakjöt í búð á innan við 900 krónur kílóið, sem mér finnst nokkuð lítið.“

Þórólfur Matthíasson.Vísir/Stefán
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir það orka tvímælis að afurðaverð til bænda muni hækka um 2,8 prósent á sama tíma og lambakjöt seljist ekki

„Þessi mynd sem við sjáum núna er ekki alveg í takt við lögmál um framboð og eftirspurn. Verðið ætti nú að lækka ef um tvö þúsund tonn eru óseld af kjöti rétt fyrir sláturtíð. Einnig ætti verðið til neytenda að lækka á þessum tíma ef miklar birgðir eru til í landinu af kjöti,“ segir Þórólfur.

Þórarinn segir að afurðastöðvarnar verði að svara því hvers vegna verðið hækkar á meðan kjöt selst ekki. „Það er skýrt kveðið á um það að við megum ekki ræða afurðaverð við afurðastöðvar. Þeir hljóta að greiða fyrir kjötið það verð sem þeir telja sig geta fengið fyrir það eftir vinnslu.“

Þórarinn telur að menn hafi misst af því gullna tækifæri að markaðssetja lambakjötið fyrir erlenda ferðamenn hér á landi í sumar. 

„Hingað til lands koma næstum milljón ferðamenn til landsins og til að anna eftirspurn þessa hóps innanlands erum við að tífalda innflutning á nautakjöti og flytja inn gríðarmikið magn af svínakjöti. Hér hefðum við átt að gera betur og ota lambakjötinu okkar í meira mæli að þessum ört stækkandi hópi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×