Erlent

Afturhvarf til „venjulegs“ stjórnarfars í Svíþjóð

Bjarki Ármannsson skrifar
Fredrik Reinfeldt gæti verið á leið úr embætti forsætisráðherra.
Fredrik Reinfeldt gæti verið á leið úr embætti forsætisráðherra. Vísir/AFP
Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í dag og benda skoðanakannanir til þess að sósíaldemókratar vinni kosningasigur eftir átta ára stjórn íhaldsmannsins Fredrik Reinfeldt.

Fréttaveitan AP segir að það myndi þýða afturhvarf til „venjulegs“ stjórnarástands í landinu, enda hafa jafnaðarmenn aldrei verið jafn lengi utan stjórnar frá því að þeir komust fyrst til valda árið 1920.

Reinfeldt, sem tók við embætti forsætisráðherra árið 2006, hefur verið lengur við stjórnvölinn en nokkur annar sænskur íhaldsmaður. Honum hefur verið hrósað á alþjóðagrundvelli fyrir að koma Svíum nokkuð vel út úr efnahagshruninu í Evrópu en margir samlandar hans óttast að markaðshyggjusinnuð stefna hans hafi skaðað velferðarkerfið í landinu.

Kannanir benda einnig til þess að flokkur Svíþjóðardemókrata, sem vilja berjast gegn frjálslegri innflytjandastefnu landsins, bæti við sig fylgi og gæti jafnvel haft áhrif á stjórnarmyndun á þingi. Einnig gæti femínistaflokkur náð fulltrúa á þingið í fyrsta sinn í sögu sænskra stjórnmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×