Viðskipti innlent

Aftur hægt að fá kók í Þjóðleikhúsinu

Atli Ísleifsson skrifar
Um 111 þúsund manns komu á sýningar Þjóðleikhússins á síðasta leikári.
Um 111 þúsund manns komu á sýningar Þjóðleikhússins á síðasta leikári. Mynd/Vífilfell
Þjóðleikhúsið og Vífilfell hafa gert með sér samning um sölu á drykkjum Vífilfells í leikhúsinu. Í tilkynningu frá Vífilfelli segir að kók hafði „verið selt í greiðasölu leikhússins frá opnun þess árið 1950, allt þar til fyrir þremur árum, þegar kóladrykkir annars framleiðanda fóru þar inn, en nú verður aftur breyting þar á.

Um 30 ólíkar sýningar eru á fjölum leikhússins á ári hverju og í fyrra voru gestir yfir 111 þúsund. „Það er því um mikla hagsmuni að ræða í veitingasölu hússins, bæði í hléi og fyrir sýningar.“

Jón Haukur Baldvinsson, forstöðumaður sölusviðs Vífilfells, segir starfsmenn fyrirtækisins vera mjög ánægða með að hafa náð að endurvekja samstarfið við Þjóðleikhúsið. „Við viljum auðvitað að gestir geti keypt vörur okkar í leikhúsi allra landsmanna. Leikárið er mjög spennandi hjá Þjóðleikhúsinu í ár og við erum sérstaklega spennt fyrir Latabæjarsýningunni en Vífilfell hefur lengi komið að framleiðslu á söfum undir merkjum Latabæjar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×