Innlent

Áfrýja til Hæstaréttar vegna FMos

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Mosfellsbær ætlar að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms vegna álagningar gatnagerðargjalds við byggingu framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að Mosfellsbær þurfi að greiða íslenska ríkinu rúmar hundrað milljónir króna vegna framkvæmdanna á árunum 2011 til 2014.

Samkvæmt tilkynningu frá Mosfellsbæ stóðu bærinn og ríkið saman að byggingu framhaldsskólans. Þar segir einnig að samið hafi verið um að ríkið skyldi greiða 60 prósent kostnaðarins við bygginguna og bærinn 40 prósent.

„Mosfellsbær taldi sig vera í rétti til að innheimta gatnagerðargjald á grundvelli laga nr. 153/2006 þar sem skylt er að innheimta gatnagerðargjöld af fasteignum í þéttbýli án undantekninga er varða byggingu framhaldsskóla,“ segir í tilkynningunni.

„Dómurinn kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að túlka beri lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla þannig að sveitarfélög skuli leggja til lóðir undir framhaldsskóla án endurgjalds og þar með talið án gatnagerðargjalda.“

Bærinn lítur á málið sem prófmál og telja að það muni hafa áhrif á byggingu framhaldsskóla í öllum sveitarfélögum.

„Mosfellsbær lítur á málið sem prófmál sem hafi áhrif á byggingu framhaldsskóla í öllum sveitarfélögum. Gatnagerðargjald er skattur og samkvæmt meginreglu laga skal túlka allar undantekningar frá greiðslu skatta mjög þröngt. Þess má geta að gatnagerðargjöld eiga að standa undir gatnagerð almennt í sveitarfélögum en ekki bara gatnagerð að þeim fasteignum sem um ræðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×