Innlent

Afrísk svínapest að breiðast út

Atli Ísleifsson skrifar
Um er að ræða alvarlegan sjúkdóm í svínum, sem í flestum tilvikum veldur dauða.
Um er að ræða alvarlegan sjúkdóm í svínum, sem í flestum tilvikum veldur dauða. Vísir/GVA
Matvælastofnun hefur varað fólk við útbreiðslu afrískrar svínapestar sem breiðist nú um Evrópu. Um er að ræða alvarlegan sjúkdóm í svínum, sem í flestum tilvikum veldur dauða. Sjúkdómurinn berst ekki í önnur dýr né fólk.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að mjög mikilvægt sé að fólk hafi þennan sjúkdóm í huga ef það er á ferðinni í ákveðnum löndum í austurhluta álfunnar „og taki alls ekki með sér hrátt eða illa hitameðhöndlað kjöt hingað til lands eða til annarra landa sem eru laus við sjúkdóminn.“

Afrísk svínapest hefur verið að brjóta sér leið úr austri til æ fleiri Evrópulanda. „Um er að ræða alvarlegan sjúkdóm í svínum, sem í flestum tilvikum veldur dauða. Sjúkdómurinn berst ekki í önnur dýr né fólk. Veiran sem veldur sjúkdómnum getur m.a. borist með sýktum svínum og sæði, hráu kjöti af sýktum dýrum, sem og farartækjum, búnaði, fatnaði o.fl. sem mengast hafa af veirunni. Smitdreifing til nýrra landa er oftast rakin til matvæla og lifandi svína.“

Í tilkynningunni segir að rétt sé að minna á að bannað er að fóðra dýr sem alin eru til manneldis á dýrapróteinum, að undanskildu fiskimjöli. „Þetta á m.a. við um eldhúsúrgang sem kjöt getur leynst í. Dýraeigendur bera ábyrgð á að verja dýrin sín gegn sýkingum en það er á ábyrgð okkar allra að smitefni dýrasjúkdóma berist ekki til landsins.“

Sjúkdómurinn hefur verið til staðar í Rússlandi frá árinu 2007 og er nú landlægur þar. Georgía, Armenía, Aserbaídsjan, Úkraína og Hvíta-Rússland hafa jafnframt öll tilkynnt um tilfelli á undanförnum árum.

„Á þessu ári hafa svo tilfelli greinst í Lettlandi, Litháen og Póllandi, sem staðfest hefur verið að eru af völdum sama stofns veirunnar og er á ferðinni í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi.“

Á myndinni má sjá útbreiðslu sjúkdómsins frá 2007 til 2014.Mynd/Framkvæmdastjórn ESB
.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×