Fótbolti

Afríka fær tvö sæti á HM til viðbótar ef FIFA stækkar mótið í 40 lið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gianni Infantino er í smá veseni.
Gianni Infantino er í smá veseni. vísir/getty
Afríka fær tvö sæti til viðbótar á Heimsmeistaramótinu í fótbolta verði það stækkað úr 32 liðum í 40 fyrir keppnina árið 2026.

Gianni Infantino, nýr forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, lagði til að stækka keppnina úr 32 liðum í 40 áður en hann var kosinn til starfa í febrúar á þessu ári. Afríka er með fimm sæti á HM eins og staðan er í dag.

„Ég hef lagt til að HM verði 40 liða keppni og ef það gerist legg ég til að Afríka fái allavega tvö sæti til viðbótar,“ segir Infantino en BBC greinir frá.

Stækkunin tæki ekki gildi fyrr en eftir áratug á HM 2026 en búið er að staðfesta að HM í Katar 2022 verði 32 liða mót.

Infantino þarf fyrst að hugsa um eigin mál áður en hann fer þó á fullt í þetta því hann á enn eftir að funda með siðanefnd FIFA.

Hann er grunaður um að hafa brotið siðareglur Alþjóðaknattspyrnusambandsins þegar hann á að hafa setið í einkaflugvélum þjóða sem voru að berjast um að halda HM auk þess sem hann á að hafa ráðið fólk án þess að horfa til starfshæfni þess og að rukka FIFA um dýnur, blóm og æfingatæki sem hann keypti.

Hann segist ekkert hafa brotið af sér en á eftir að svara fyrir þetta á fundi með siðanefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×