Enski boltinn

Afobe til Bournemouth á metfé

Anton Ingi Leifsson skrifar
Benik Afobe er mættur til nýliða Bournemouth.
Benik Afobe er mættur til nýliða Bournemouth. vísir/getty
Benik Afobe er genginn í raðir nýliða Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, en Afobe kemur frá Wolves þar sem hann hefur raðað inn mörkum.

Afobe, sem er uppalinn hjá Arsenal, hefur skorað 23 mörk mörk í 48 leikjum í ensku B-deildinni. Hann er annar leikmaðurinn sem nýliðarnir fá í glugganum, en áður hafði Juan Iturbe gengið í raðir liðsins frá Roma.

Eddie Howie segir að Afobe komi með styrk, hraða og vonandi mörk, en Howie missti aðalframherja sinn, Callum Wilson, og vængmanninn Max Gradel í langtímameiðsli fyrr á tímabilinu.

Þetta er mesta fjárhæð sem Bournemouth hefur borgað fyrir leikmann, en áður höfðu þeir borgað 8 milljónir punda fyrir Tyrone Mings varnarmann Ipswich síðasta sumar. Hann meiddist einnig og verður frá í lengri tíma.

Wolves hafnaði boði Norwich í Afobe í sumar, en með trega urðu þeir að samþykkja þetta boð þar sem ekkert annað var í stöðinni segir í yfirlýsingu frá Wolves.

Bournemouth er í 16. sæti deildarinnar með 21 stig, fjórum stigum fyrir ofan Newcastle sem er í fallsæti, átjánda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×