Innlent

Afnám gjaldeyrishafta áhættusamara samhliða miklum launahækkunum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Afnám fjármagnshaftanna gæti orðið áhættusamara ef mjög miklar launahækkanir verða á öllum vinnumarkaðnum. Þetta segir seðlabankastjóri og að hækkununum myndi fylgja aukin verðbólga og vaxtahækkanir.

Þeim hefur fjölgað hratt síðustu vikur kjaradeilunum sem komnar eru á borð ríkissáttasemjara. Á annað hundrað kjarasamningar bæði á almenna og opinbera markaðnum eru lausir um þessar mundir. Mikið ber á milli í mörgum deilunum þar sem launafólk vill sjá ríflegar launahækkanir jafnvel upp á tugi prósenta en atvinnurekendur og ríkið hafa lítið boðið umfram 3,5% launahækkanir.


Seðlabankinn óttast að gangi kröfur um miklar launahækkanir eftir og nái þær til stórs hluta vinnumarkaðarins sé hætta á að verðbólgan fari af stað. 

„Náttúrulega ef það verða mjög miklar launahækkanir yfir allan vinnumarkaðinn. Þá er ég ekki að tala um einstakir hópir eða eitthvað því um líkt. Yfir allan vinnumarkaðinn og upp og niður allan launastigann einhverjar tveggja stafa tölur. Þá er öllum ljóst að þá fer náttúrulega verðbólgan af stað og við munum þurfa að bregðast við með því að hækka vexti,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.  

Mikil hækkun launakostnaðar er einnig til þess fallin að grafa undan efnahagsbatanum og hafa slæm áhrif á áform um losun fjármagnshafta. Már segir hækkun vaxta bankans koma til með að hafa áhrif á gengi krónunnar.

„Þá hækkar raungengið það grefur undan, allavega um hríð, grefur undan viðskipta afgangnum. Líka innlend eftirspurn eykst vegna þess auðvitað kaupmátturinn tímabundið er að aukast og það grefur líka undan honum og ef að viðskiptaafgangurinn sveiflast yfir í viðskiptahalla þá verður afnám fjármagnshafta áhættusamara,“ segir Már
 

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×