Körfubolti

Afmælisgjöfin til þjálfarans var að koma Val í Höllina í fyrsta sinn í 30 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn fagna sigri á Haukum í gær en Ágúst Björgvinsson kom liðinu í Höllina á afmælisdaginn.
Valsmenn fagna sigri á Haukum í gær en Ágúst Björgvinsson kom liðinu í Höllina á afmælisdaginn. Vísir/Anton
1. deildarlið Vals er komið í undanúrslit Maltbikars karla í körfubolta eftir að liðið sló Domino´s deildarlið Hauka út í Valshöllinni í gærkvöldi.

Þetta var þriðja úrvalsdeildarliðið sem Valur slær út í ár en liðið hafði áður unnið lið Skallagríms og Snæfells.

Það má segja að Valsstrákarnir hafi fært þjálfara sínum frábæra afmælisgjöf en Ágúst Björgvinsson hélt upp á 38 ára afmælið sitt í gær.

Ágúst er uppalinn Valsmaður og fór snemma að þjálfa hjá félaginu. Þetta var örugglega með betri afmælisgjöfum sem hann hefur fengið.

Það eru liðin 19 ár síðan Valsmenn voru síðast í undanúrslitum karla í körfuboltanum en það er enn lengra síðan að karlalið Valsmanna komst í Laugardalshöllina.

Körfuknattleikssamband Íslands bryddar nú upp á þeirri nýjung að hafa öll undanúrslitin líka í Höllinni og spila þau í bikarúrslitaleiksvikunni eins og hefur verið hjá handboltanum síðustu ár.

Karlalið Valsmanna var síðast í Laugardalshöllinni í bikarúrslitaleiknum 1987 þegar liðið mátti sætta sig við tap á móti Njarðvík. Leikurinn fór fram 10. apríl 1987 og endaði með 91-69 sigri Njarðvíkinga.

Valsmenn hafa unnið bikarinn þrisvar sinnum eða árin 1980, 1981 og 1983 en Valsliðið komst meðal annars fimm sinnum í bikarúrslitaleikinn frá 1978 til 1984.

Kvennalið Vals komst aftur á móti í bikarúrslitaleikinn fyrir fjórum árum en tapaði fyrir Keflavík. Þá var einmitt Ágúst Björgvinsson þjálfari liðsins. Hann er því sá eini þjálfarinn sem hefur komið Valsliði í Laugardalshöllina í þrjátíu ár.

Valsmenn fá verðugt verkefni í undanúrslitaleiknum því þeir drógust á móti Íslands- og bikarmeisturum KR.

Grein úr tímanum um bikarúrslitaleikinn 1987.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×