Innlent

Afmæli eiginkonunnar haldið í leikhúsinu

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins.
Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins. vísir/stefán
 „Við erum almennt ekki að leigja út salinn, en starfsfólki er gefinn kostur á því á þeim tíma sem engar sýningar eru í húsinu, frá miðjum ágúst til byrjun september,“ segir Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgar­leikhússins, sem hélt upp á fertugsafmæli eiginkonu sinnar, lögmannsins Katrínar Oddsdóttur, í forsal Borgarleikhússins um helgina. Slíkt stendur almenningi ekki til boða. Kristín segir að dæmi séu um að starfsfólk nýti sér þennan dauða tíma í starfsemi leikhússins til að halda brúðkaup, afmæli og erfidrykkjur.

Aðspurð hvort greidd sé leiga fyrir slík afnot af húsnæðinu segir Kristín svo vera en um sé að ræða sérstakt starfsmannaverð. Aðspurð segir Kristín að hún og Katrín hafi greitt 40 þúsund krónur fyir salinn einan. Hún segir alla leigu á húsinu renna til Leikfélags Reykjavíkur.

Kristín bætir við að öll laun starfsfólks Borgarleikhússins séu greidd af þeim sem veisluna heldur hverju sinni, ekki leikhúsinu og sama eigi við um veitingar.

„Við elduðum mat sjálfar og keyptum allt áfengi sjálfar, að sjálfsögðu.“ Af myndum á samfélagsmiðlum að dæma var fertugsafmælisveislan hin glæsilegasta og forsalurinn vel nýttur fyrir skemmtiatriði af ýmsum toga.

Kristín segir að verðlisti sé til fyrir leigu á sölum Borgarleikhússins, sem hafi meðal annars verið leigðir fyrirtækjum til fundarhalda. Það sé þó fátítt.

„Sökum anna hér á veturna þá getum við nánast aldrei leigt út okkar sali. Forsalurinn er leigður út fyrir brúðkaup, erfisdrykkjur og afmæli en þá langoftast til starfsfólks á þessum tíma sem ég nefndi.“

Reykjavíkurborg er eigandi Borgarleikhússins sjálfs, en Leikfélag Reykjavíkur er sjálfseignarstofnun og ber stjórn þess ábyrgð á rekstri leikfélagsins og leikhússins. Í gildi er rekstrarsamningur borgarinnar við Leikfélag Reykjavíkur en í þriggja ára samningi sem gildir til ársloka 2018 nemur heildarframlag til starfsemi og rekstrar Borgarleikhússins um 936 milljónum króna. Að auki fékk Borgarleikhúsið 21 milljón í tímabundið framlag á fjárlögum ársins í ár sem ætlað er að styrkja reksturinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×