Innlent

Afleitt veður í Mývatnssveit: Hættir ekki að veiða fyrr en hann fær kalsár á fingur og tær

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Það er afar sérkennileg tilfinning að byrja veiðimorguninn á því að fara ekki í vöðlurnar heldur finna sköfuna og skafa af bílrúðum “
"Það er afar sérkennileg tilfinning að byrja veiðimorguninn á því að fara ekki í vöðlurnar heldur finna sköfuna og skafa af bílrúðum “ vísir/anton brink
Hvít jörð blasti við Steingrími Sævarri Ólafssyni, veiðimanni og fjölmiðlaráðgjafa, þegar hann vaknaði í morgun. Hann er staddur í Mývatnssveit en þar er afleitt veður og snjókoma, nú í blábyrjun sumars. Steingrímur segist ekki ætla að láta veðrið stöðva sig, en er því feginn að hafa tekið með sér föðurland og skíðajakka.

„Við komum í gær í -1,5 gráðum og aflinn var að koma svona snöggfrystur upp úr ánni. Maður er yfirleitt ekki vanur því svona í sumarbyrjun að klæðast tvöföldu föðurlandi og þremur til fjórum bolum," segir hann.

„Þetta er óvenju slæmt. Ég stend hérna núna og það gengur á með hríðum og skyggnið er lítið sem ekkert. Þegar maður lítur hér upp í hlíðarnar í kring þá er allt alhvítt og það er afar sérkennileg tilfinning að byrja veiðimorguninn á því að fara ekki í vöðlurnar heldur finna sköfuna og skafa af bílrúðum og keyra miðstöðina í gang og velta því fyrir sér hvort maður hafi tekið vetrardekkin of snemma undan," bætir Steingrímur við.

Hann segir þó fátt geta stöðvað sig í veiðinni, allra síst veðrið. „Maður veiðir alveg þangað til maður fær kalskemmdir á fingur og tær. Þetta er svo mikil paradís, í hvernig veðri sem er. Þetta er svona veiðistaður þar sem það er sama hvort það er glampandi sól og fimmtán stiga hiti eða eins stigs frost, eins og núna. Maður reglulega leggur frá sér stöngina og horfir í kringum sig, andvarpar og segir Guð minn almáttugur hvað þetta er fallegt. Það á líka við um þegar sumarið er í vetrarbúningi," segir hann glaður í bragði. Hann bætir við að veiðin hafi gengið afar vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×