Skoðun

Afleitar almennings- samgöngur á Álftanesi

Eygló Ingadóttir skrifar
Opið bréf til Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra Garðabæjar.

Ágæti bæjarstjóri.

Nú eru tæp fjögur ár liðin frá því að Álftanes og Garðabær sameinuðust í eitt sveitarfélag. Fyrir okkur Álftnesinga hefur þetta að mörgu leyti haft marga kosti í för með sér enda geta stærri sveitarfélög veitt íbúum sínum betri og fjölbreyttari þjónustu en lítil og fámenn.

Þrátt fyrir að Álftnesingar sæki í auknum mæli þjónustu inn í Garðabæ, þá hefur eitt ekki breyst og það eru almenningssamgöngur út á Álftanes. Við búum enn þá við það að strætó sé ekki raunhæfur samgöngumáti þar sem fáar sem engar strætóferðir eru út á Álftanes á kvöldin og á helgi- og sunnudögum. Á Álftanesi búa 2.500 manns sem eru ekki í göngufæri við stofnleiðir strætó. Það þarf betri þjónustu við íbúa í slíkum hverfum.

Almenningssamgöngur eru í sókn um þessar mundir. Sú kynslóð sem nú vex úr grasi telur ekki eftir sér að ferðast með strætó. Tæknin hefur líka auðveldað notkun á almenningsvögnum og gert ferðir ánægjulegri. Með svokölluðu strætóappi má sjá hvenær von er á vagninum og því þurfa farþegar ekki lengur að bíða á biðstöðinni í öllum veðrum. Einnig er hægt að nýta sér netið meðan á ferð stendur. Í ársskýrslu Strætó bs. segir að farþegum fjölgi jafnt og þétt og að sveitarfélögin hafi sett sér það markmið að auka hlutfall þeirra sem nota strætó enn frekar eða úr 4% í 12% árið 2040. Þetta er frábært markmið, en því verður ekki náð meðan takmarkaðar og jafnvel engar ferðir eru í boði um kvöld og helgar.

Hagkvæmara að flytja í burtu

Þess eru mörg dæmi að Álftnesingar flytji burtu þegar börnin stálpast og fara að sækja skóla utan nessins, enda þá tvennt í boði; endalaus keyrsla um langan veg eða að kaupa aukabíl á heimilið. Þá er hagkvæmara að flytja í burtu og komast í tengsl við góðar almenningssamgöngur. Þessi þróun getur hvorki verið jákvæð né hagkvæm fyrir sveitarfélagið.

Okkur Álftnesingum er það gríðarlega mikilvægt hagsmunamál að almenningssamgöngur batni sem allra fyrst. Lágmarks­krafan er að strætó gangi á 30 mínútna fresti allan daginn og að vagninn gangi á minnst klukkustundarfresti á kvöldin og á sunnu- og helgidögum. Mér er kunnugt um að það standi ekki á Strætó bs. að koma til móts við okkur Álftnesinga, hins vegar dragi bæjarstjórn Garðabæjar lappirnar. Því spyr ég fyrir hönd okkar „vesturbæinga“: hvenær hyggst bæjarstjórnin bæta almenningssamgöngur á Álftanesi?

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×