Skoðun

Afleikur Framsóknar

Einar Brynjólfsson og Smári McCarthy skrifar
Bændur á Íslandi ættu að vera æfir. Með því að þröngva búvörusamningnum í gegnum Alþingi tók Framsóknarflokkurinn landbúnaðarmál alfarið af dagskrá fyrir komandi kosningar. Samtal stjórnmálamanna við bændur mun verða innihaldslaust, því stjórnmálamenn geta lítið gert nema að lofa upp í ermina á sér. Búvörusamningurinn festir í sessi léleg starfsskilyrði bænda út næsta áratuginn.

Samningurinn kemur í veg fyrir eðlilega endurnýjun og nýliðun, þrátt fyrir fögur orð um það í markmiðslýsingu og skammtar bændum arfaslakar tekjur, sem munu lítið breytast til hins betra á samningstímanum. 

Tilgangurinn virðist fyrst og fremst vera að tryggja gott gegnumflæði peninga til þeirra einokunarstofnana sem Bændasamtökin hygla mest.

Smári McCarthy, 1. sæti Pírata í Suðurkjördæmi.
Meðan bændum ─ sér í lagi sauðfjárbændum ─ er haldið í fátæktargildru, má búast við að ákveðnir aðilar maki krókinn með þessum samningi.

Stóra spurning Pírata er nú: hvernig getum komið landbúnaðarmálum aftur á dagskrá? Það er nefnilega mikil þörf á því að opna á heildstæða umræðu um framtíð landbúnaðar á Íslandi. Áherslan á að vera að ýta undir nýsköpun, vöruþróun og erlenda markaðssetningu íslenskra landbúnaðarafurða á öflugum samkeppnismarkaði, til að auka verðmætasköpun og sjálfbærni í greininni.

Forseti Íslands hefur í hendi sér að neita að undirrita samninginn. Með því færi hann til þjóðaratkvæðagreiðslu, og ef honum yrði hafnað væri hægt að gera eðlilegari samning sem raunverulega þjónar hagsmunum bænda ─ og almennings.

Einnig mætti lagfæra samkeppnislög, með því að afnema undanþágur fyrir MS og aðra aðila. Samningurinn yrði engu að síður gallaður, en það myndi hugsanlega ýta undir eðlilegari starfsskilyrði.

Á sínum hundrað árum hefur Framsóknarflokkurinn alltaf verið kallaður flokkur bænda. Hagsmunir bænda eru ekki hafðir að leiðarljósi í nýjum búvörusamningum. Þetta vekur upp eðlilegar spurningar um hverskonar flokkur Framsóknarflokkurinn er í dag? Kannski flokkur sérhagsmunatengsla og blekkinga.

Almennt reynum við Píratar að vera sæmilega jákvæðir og uppbyggilegir í gagnrýni okkar, en stundum þarf bara að segja hlutina eins og þeir eru.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×