Viðskipti innlent

Aflaverðmæti dróst saman um 11 prósent

ingvar haraldsson skrifar
Aflaverðmæti íslensk sjávarútvegs dróst verulega saman á milli ára.
Aflaverðmæti íslensk sjávarútvegs dróst verulega saman á milli ára. vísir/egill
Aflaverðmæti dróst saman um 10,9% milli áranna 2014 og 2013 samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.

Aflaverðmæti botnfisks nam rúmum 92 milljörðum á árinu sem er 1,1% samdráttur frá fyrra ári. Verðmæti þorskaflans jókst hins vegar um 11,9% og nam tæpum 53 milljörðum króna árið 2014.

Af flatfiski nam aflaverðmæti rúmum 7 milljörðum á síðasta ári og dróst saman um 28% frá fyrra ári. Þar vegur þyngst ríflega 2,6 milljarða samdráttur í aflaverðmæti grálúðu.

Verðmæti uppsjávarafla dróst saman um 26,5% á milli ára. Aflaverðmæti loðnu dróst saman um 77% á milli ára, og nam aflaverðmætið rúmum 3,8 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við tæplega 16,4 milljarða árið 2013. Aflaverðmæti síldar var 9,5 milljarðar á síðasta ári og lækkaði um rúm 10% frá fyrra ári.

Aflaverðmæti makríls nam 15,3 milljörðum króna árið 2014 og stóð nokkurn veginn í stað frá fyrra ári. Verðmæti kolmunnaaflans jókst hins vegar umtalsvert og nam 4,7 milljörðum samanborið við ríflega 3 milljarða árið 2013.

Verðmæti skel- og krabbadýra nam tæpum 3,7 milljörðum króna á síðasta ári sem er 17,8% samdráttur frá fyrra ári. Verðmæti rækjuaflans nam ríflega 2,5 milljörðum og dróst saman um 29% á meðan aflaverðmæti humars nam rúmum milljarði og jókst um tæp 29% samanborið við árið 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×