Skoðun

Aflandsreikningar - er nokkuð að þessu?

Jón Sigurðsson skrifar
Aflandsreikningar erlendis vekja umræður og spurningar. Menn spyrja: Er það lögbrot að eiga fé á aflandsreikningi? Er það skattsvik? Mega menn ekki ráða því hvar þeir geyma fé sitt?

Það eitt að eiga fé á aflandsreikningi á leyndum stað erlendis er feluleikur, en ekki endilega lögbrot. Og athugun hvers máls leiðir í ljós hvort um skattsvik er að ræða.

Hvað er þá að? - Nokkur atriði koma til athugunar:

Menn taka stöðu gegn íslensku krónunni með því að eiga stórfé á aflandsreikningi erlendis, fé sem ekki á rætur í viðskiptum erlendis. Þá veikja menn gjaldeyrisstöðu Íslands og geta hagnast á fjármálaerfiðleikum sem verða kunna hér heima.

Ef eigandi slíks fjár gegnir trúnaðarstöðu hérlendis kann hann að vera vanhæfur í verkefnum, vegna hagsmuna- og trúnaðarárekstra, líka sem maki málsaðila. Þetta snertir fjármálakerfið, uppgjör slitabúa, skattamál, fjárfestingar o.s.frv. Alveg sérstaklega getur þetta varðað ákvarðanir um afslætti, svo sem t.d. varðandi stöðugleikaframlögin svonefndu.

Leggja ber fram sérstakt skattframtal, svokallað CFC-framtal, um inneignir á aflandsreikningi erlendis. Ella verða skattskil vart talin fullnægjandi.

Með því að geyma fé sitt á aflandsreikningi erlendis nýta menn forréttindi umfram aðstöðu almennings, til að fá betri kjör, ávöxtunarkosti, jafnvel skatta o.s.frv.

Ef eigandi slíks fjár gegnir trúnaðarstöðu hérlendis verður hann að gera vandaða grein fyrir innstæðum sínum og maka síns. Ella kallar hann trúnaðarbrest yfir sig, og þetta getur varðað upplýsingaskyldu.

Almennt er það talið valda trúnaðarbresti ef maður í trúnaðarstöðu verslar í laumi um inneignir við maka sinn, t.d. þegar breytt er lögum um skatta, skattskil, upplýsingamiðlun eða annað slíkt.

Það veldur líka trúnaðarbresti ef maður verður margsaga um einkafjármál sín eða reynir að þræta fyrir þau.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×