Innlent

Afkoma bankanna úr takti við allt annað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson óskaði eftir fundi í viðskiptanefnd.
Guðlaugur Þór Þórðarson óskaði eftir fundi í viðskiptanefnd.
Forsvarsmenn viðskiptabankanna þriggja munu mæta á fund viðskiptanefndar Alþingis í fyrramálið til að ræða ársreikninga og afkomu bankanna. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir því að efnt yrði til fundarins.

„Þrátt fyrir að maður gleðjist nú yfir góðri afkomu fyrirtækja þá er þetta nú ekki í samræmi við það sem gerist í íslensku efnahagslífi. Við erum að sjá hagnaðartölur sem eru sambærilegar, jafnvel hærri en það sem gerðist í góðærinu,“ segir Guðlaugur Þór. Hann segir að þessar hagnaðartölur bankanna séu úr öllu samhengi við þá stöðu sem heimili og fyrirtæki eru í.

„Það sem ég hef áhyggjur af er hvort þetta sé tilkomið vegna þess að þær afskriftir sem gert var ráð fyrir að færu til heimila og fyrirtækja hafi ekki skilað sér,“ segir Guðlaugur Þór. Mikilvægt sé að þær afskriftir sem lagt var upp með fari til heimilanna og fyrirtækjanna.

Guðlaugur Þór segir mikilvægt að kanna hver skýringin sé á rekstrarafkomu bankanna og meta stöðuna út frá því. „Ef við erum að horfa á það næstu árin að heimilin og fyrirtækin muni ekki gera neitt annað en að vinna fyrir fjármálastofnanir, að þá erum við að tala um grafalvarlega stöðu,“ segir Guðlaugur Þór. Það sé heldur ekki glæsileg framtíðarsýn ef þeir fjármunir sem renna inn í bankana fari beint til erlendu kröfuhafanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×