Skoðun

Afhverju er stríð í Sýrlandi?

Guðný Hjaltadóttir skrifar
Marghliða styrjöld

Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst í byrjun árs 2011 í tengslum við Arabíska vorið, mótmælaöldu í Mið-Austurlöndum. Hefur upphafið verið rakið til þess er hópur ungra drengja skrifaði mótmælaorð gegn Bashar al-Assad forseta á vegg í borginni Daraa. Voru drengirnir handteknir og pyntaðir. Fréttirnar af drengjunum breiddust fljótt út og fylktist fólk að til að mótmæla meðferðinni á þeim og krefjast lýðræðisumbóta. Assad brást við af hörku og sigaði stjórnarher sínum á mótmælendur. Stigmögnuðust mótmælin fljótt og árið 2013 beitti Assad m.a. efnavopnum gegn borgurum sínum. Fyrirætlanir um inngrip á þessum tíma voru stöðvaðar fyrir tilstilli Pútíns Rússlandsforseta og samkomulag gert við Assad um að láta af hendi efnavopn sín. 

Í þessu styrjaldarumhverfi fengu samtök, sem á tíma efnavopnaárásanna voru lítt þekkt, að dafna, - ISIS-samtökin . Átökin í Sýrlandi hafa því verið marghliða; her Assads (með líbönsku Hezbollah-samtökin sér við hlið), ,,hófsamir“ uppreisnarmenn, ISIS og önnur öfgasamtök á borð við Jabhad al-Nusra (arm Al-Qaeda í Sýrlandi). Er þannig hægt að gera greinarmun á borgarastyrjöldinni sem slíkri þar sem andstæðar fylkingar berjast innbyrðis um völdin í Sýrlandi og svo baráttunni gegn ISIS. Einkennist styrjöldin einnig af togstreitu á milli shía- og súnní-múslima, kristinna, kúrda o.s.frv. (e. sectarian war).

Bandaríkjamenn hafa tekið þátt í baráttunni gegn ISIS. Aðgerðir þeirra hafa falist í loftárásum á samtökin og hernaðarlegum stuðningi við Kúrda sem berjast við samtökin á landi. Það sem greinir aðgerðir gegn ISIS frá öðrum hernaðaraðgerðum Bandaríkjamanna á síðari árum er að þær njóta víðtæks stuðnings. Ólíkt til að mynda Al-Qaeda er ekkert ríki sem veitir ISIS skjól. Það að hryðjuverkasamtök, sem tilheyra engri þjóð, hafi náð undir sig svo stóru landsvæði (og olíuauðlindum) eins og raun ber vitni er án fordæma. Hernaðarsérfræðingar hafa þó lengi lýst því yfir að loftárásir séu ekki nægjanlegar eigi að ráða að niðurlögum ISIS-samtakanna heldur þurfi landhernað. Nokkuð sem ríkisstjórn Bandaríkjanna forðast, brennd af aðgerðum fyrri ríkisstjórna.

Þáttur Tyrkja

Tyrkir hafa verið gagnrýndir fyrir aðgerðarleysi í baráttunni gegn ISIS og fyrir að herða ekki landamæraeftirlit sitt. Í júlí sl. heimiluðu Tyrkir afnot Bandaríkjamanna af tyrkneskri herstöð eftir margra mánaða neitun. Gerðist það í framhaldi af því að sjálfsmorðasárás var framin af hálfu ISIS-liða í tyrkneska bænum Suruc og tveir tyrkneskir lögreglumenn voru síðan myrtir af uppreisnarmönnum úr liði Kúrdíska Verkamannaflokksins (PKK) sem sökuðu lögreglumennina um aðstoða ISIS. PKK er flokkur Kúrda sem barist hefur fyrir sjálfstæði Kúrda síðustu áratugi og hefur háð blóðugar orrustur við tyrkneska ríkið. Í framhaldi af þessum árásumhófu Tyrkir loftárásir á ISIS og PKKog kölluðu eftir neyðarfundi NATO til að fá blessun bandalagsins. Við fyrstu sýn virtust það góðar fréttir að Tyrkir létu til sín taka með loftárásum gegn ISIS, kom samþykki NATO á aðgerðum Tyrkja því ekki á óvart. NATO hvatti þó Tyrkja til að svara árásum PKK af hófsemi og reyna að virða gildandi friðarsamkomulag þeirra. 

Tyrkir hófu loftárásir sínar í júlí sl. en á rúmlega mánaðartímabili var nær öllum þeim loftárásum beint að PKK en ekki ISIS. Hefur aukinn stuðningur við þingflokk Kúrda í Tyrklandi verið nefnd sem ástæða fyrir þessum viðbrögðum tyrkneskra yfirvalda sem sjá sér þarna leik á borði. Þessi misnotkun Tyrkja á því ástandi sem er í Sýrlandi er ótrúleg. Ekki bara hafa Tyrkir gerst sekir um algjört aðgerðarleysi til lengri tíma heldur hafa þeir nú unnið að því að veikja þann aðila sem veitt hefur ISIS mesta mótstöðu.

Forseti Tyrklands réttlætti aðgerðir Tyrkja á þeim grundvelli að enginn greinarmunur væri á hryðjuverkasamtökum.Það er ekki alskostar rétt. ISIS-samtökin eru ógn af nýrri stærðargráðu og annars eðlis en PKK. ISIS-samtökin virða engin landamörk, þau hafa nú þegar stofnað kalífaumdæmi sem þau leitast við að stækka, þar sem Sharía-lög eru túlkuð að vild og framfylgt með hrottafengnum hætti. Samtökin hafa verið kölluð ,,takfiri“ hryðjuverkasamtök. Í því felst að samtökin stunda það að saka aðra múslima um trúarfráhvörf (e. apostasy) og gera þá þar með réttdræpa. Aðrir múslimar, sem fylgja ekki Islam samkvæmt þeirra þröngu túlkun, eru þannig í gríðarlegri hættu. Samtökin munu ekki róast við það að utanaðkomandi afskiptum sé hætt heldur eru þau drifin áfram af afar hættulegri hugmyndafræði og ná að dafna í stríðsástandi þar sem stjórnleysi ríkir. Nái samtökin að breiða frekar úr sér mun flóttamannastraumur aukast. Vegna þrýstings hafa Tyrkir samþykkt að beita sér af meira afli gegn ISIS. Árásir þeirra gegn PKK standa hins vegar enn yfir sem hefur eðlilega leitt til gagnárása og ríkir því hernaðarástand á svæðum Kúrda.

Staðgenglastríð heimsveldanna

Styrjöldin í Sýrlandi hefur ákveðin einkenni staðgenglastríðs (e. proxy war) þar sem önnur ríki gæta hagsmuna sinna með styrkingu stríðandi fylkinga. Assad nýtur stuðnings Rússa og Írana (og Íraka) sem hafa séð honum fyrir vopnum á meðan Bandaríkjamenn, Tyrkir og Saudi Arabar (ásamt hinum Persaflóaríkjunum) hafa stutt uppreisnarhópa (að ISIS undanskildum sem Saudi Arabar tóku um tíma þátt í loftárásum á). Hófu Rússar í seinustu viku loftárásir gegn ISIS en þeir hafa óskað eftir samstarfi við Bandaríkjamenn í baráttunni gegn samtökunum. Það sem staðið hefur í vegi fyrir slíkri samvinnu er krafa Rússa um að Assad verði áfram við völd en það er nokkuð sem Bandaríkjamenn geta ekki fallist á enda hefur hann verið sakaður um stríðsglæpi. Þar að auki styrkir það stöðu Rússa á svæðinu. Hugmyndin er hins vegar ekki fráleit að því leyti að af tvennu illu er Assad skárri kostur en ISIS eða al-Nusra. Kostir Assads eru til að mynda þeir að hann styður aðskilnað ríkis og trúar (e. secular state). Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri SÞ, hefur óskað eftir samvinnu framangreindra ríkja.

Líkurnar á samvinnu hafa þó farið dvínandi seinustu daga en Bandaríkjamenn (og NATO) hafa sakað Rússa um að beina árásum sínum ekki einungis að öfgahópum heldur einnig öðrum uppreisnarhópum í Sýrlandi. Rússar hafna ásökununum en hafa þó greint frá því að þeir telji fáa hófsama uppreisnarmenn eftir þar sem þeir hafi flestir gengið til liðs við öfgasamtök. Hafa Rússar á móti sakað Bandaríkjamenn um að vita hverjir kaupa olíu á svörtum markaði af ISIS án þess að bregðast við og fyrir að hafa stutt uppreisnarmenn með vopnum sem hafi svo gengið til liðs við ISIS. Öll samskipti ríkjanna einkennast þannig af gríðarlegu vantrausti og fréttaflutningur afar misvísandi. Reynist ásakanir á hendur Rússum réttar verður það einungis olía á eldinn og má þá búast við að Persaflóalöndin auki frekar stuðning sinn við uppreisnarhópa, hvaða nafni sem þeir nefnast. Þá fyrst mun verulega anda köldu milli Rússa og Bandaríkjamanna. Samskipti Rússa og Tyrkja eru nú þegar við suðumark.

Það er ljóst að Assad, með stuðningi Rússa og Írana, mun ekki víkja á meðan öfgahópar sitja um Sýrland. Til þess að einhver friðarvon verði í Sýrlandi þarf hins vegar að brjóta á bak framgöngu þessara hópa. Ef það verður einungis gert með samvinnu er það til vinnandi að Assad sitji áfram um stund. Hver veit nema hægt sé að semja um að Assad víki ef sú barátta vinnst með sameiginlegu afli.

Assad hefur varið aðgerðir sínar með þeim rökum að þeir sem hafi staðið að uppreisninni árið 2011 hafi ekki verið friðsælir mótmælendur heldur hafi uppreisnin samanstaðið af öfgamönnum sem vildu ýta honum af stóli, m.a. vegna afstöðu hans til aðskilnaðar ríkis og trúar og koma á Sharía-lögum. Heimildir frá upphafi mótmælanna, m.a. upptökur sem sýrlenskir borgarar birtu á internetinu og frásögn fréttamanna, virðast hins vegar sýna mótmæli almennra borgara þar sem gerð var krafa um aukið lýðræði. Þá hefur Assad síendurtekið verið sakaður um pyntingar og fyrir notkun ólöglegra vopna sem bitna á óbreyttum borgurum. Þess konar framferði verður ekki réttlætt með neinum hætti. Því fleiri saklausir borgarar sem láta lífið, því fleiri ganga til liðs við öfgaöfl.

Í ljósi sögu vesturveldanna í Mið-Austurlöndum er ekki skrítið að efasemdir séu um afskipti Bandaríkjamanna í Sýrlandi. Margir telja Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra við Persaflóa bera raunverulega ábyrgð á styrjöldinni. Halda ýmsir því m.a. fram að þeir hafi stutt öfgahópa til að koma Assad frá til (og með því auka áhrif sín á svæðinu) en það sem í upphafi hafi verið friðsæl mótmæli hafi breyst í vopnaða styrjöld málaliða og jíhadista gegn Assad. Það væri þá ekki í fyrsta skiptið sem Bandaríkjamenn beita þeirri aðferð og vísa margir til þess er íranska leiðtoganum Mosaddiq var komið frá völdum eftir að hann lýsti því yfir að Íran ætti olíuauðlindir sínar, ekki önnur ríki. Ég ætla ekki að reyna að skera úr um raunverulega þátttöku eða hvatir Bandaríkjamanna enda ekki með nægilega yfirsýn og tíminn kann að leiða ýmislegt í ljós. Afskipti vesturveldanna í Mið-Austurlöndum hafa vissulega haft katastrófísk áhrif á stöðu mála þar og uppgang öfgahópa. Beinn eða óbeinn stuðningur þeirra við Saudi-Arabíu, Ísraela og Tyrki sem og tregða til að samstarfs með Rússum dregur jafnframt úr trúverðugleika þeirra. Það verður þó að fara varlega að samsama núverandi ríkisstjórn fyrri ríkisstjórnum Bandaríkjanna og má benda á að ofsakennd viðbrögð Assads eru ekki eitthvað sem hægt er að kenna Bandaríkjamönnum um.

Nú þegar tugþúsundir flóttamanna banka upp á hjá ríkjum heims og lífvana líkamar barna skolast upp á strendur þeirra eru leiðtogar heimsins tilneyddir að horfast í augu við ástandið. Móttaka flóttamanna er augljós skylda en það er hins vegar ekki lausn á vandanum. Það þarf að uppræta orsök flóttans. Það þarf samvinnu í baráttunni gegn ISIS. Það þarf að setja mannúð ofar viðskiptatengslum, olíu og áhrifum á landsvæðum. Það þarf að fá Tyrki til að átta sig á því að ISIS er stærri ógn en Kúrdar. Það þarf að koma á vopnahléi meðal hófsamra uppreisnarhópa í Sýrlandi og stjórn Assads. Í betri heimi yrði Assad dreginn fyrir Stríðsglæpadómstólinn í Haag. Nokkuð sem hefði átt að gera árið 2013 þegar hann fyrirskipaði að beita skyldi efnavopnum gegn saklausum borgurum. 


Tengdar fréttir

Tími til aðgerða

Það líður ekki sá dagur að ekki birtist fréttir utan úr heimi um hræðilegt ofbeldi gegn konum. Þar sem komið er fram við konur með svo ómannúðlegum og sadistískum hætti að maður grípur fyrir andlitið við lesturinn. Hvort sem um er að ræða hrottalegar hópnauðganir, sýruárásir, grýtingar, íkveikjur eða annað. Eru athafnirnar iðulega réttlættar á grundvelli athafna konunnar sjálfrar (e. victim blaming), menningu, laga, vangreidds heimanmundar eða öðrum álíka fjarstæðukenndum átyllum.

Má ég nafngreina kvalara minn?

Bylting varð í Facebook-hópnum Beauty tips á dögunum þar sem fjöldi kvenna hefur komið fram og greint frá kynferðislegu ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir.

Er ég femínisti?

Þegar ég var yngri þótti mér svarið við þessari spurningu tiltölulega auðvelt. Auðvitað er ég femínisti.




Skoðun

Sjá meira


×