Erlent

Áfengi heilsubót fyrir aðeins 15 prósent

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Aðeins um 15 prósent hafa gagn af því að drekka eitt glas af rauðvíni á dag.
Aðeins um 15 prósent hafa gagn af því að drekka eitt glas af rauðvíni á dag.
Aðeins um 15 prósent manna hafa gagn af því að drekka eitt glas af rauðvíni á dag sér til heilsubótar. Þetta eru niðurstöður rannsóknar norskra og sænskra vísindamanna sem gerð var við háskólann í Gautaborg í Svíþjóð.

Niðurstöður franskrar rannsóknar frá 1995 gáfu vísbendingar um að sérstakt afbrigði af geni gæti valdið því að áfengi hefði verndandi áhrif. Vísindamennirnir í Gautaborg ákváðu að sannreyna þetta á 618 manns með hjartasjúkdóma og á um 3.000 manns í viðmiðunarhópi. Þátttakendur í rannsókninni voru flokkaðir eftir því hversu mikið þeir sögðust drekka af áfengi. Þar að auki var rannsakað hvort þeir bæru fyrrgreint afbrigði af geni.

Rannsóknin leiddi í ljós hið sama og franska rannsóknin gerði fyrir um 20 árum. Miklu færri þeirra sem eru með þetta sérstaka gen og drekka áfengi í hófi eru með hjartavandamál.

Á norska vísindavefnum forskning.no er haft eftir norska prófessornum Dag Thelle að eitt og sér verndi genið ekki fyrir sjúkdómum. Þegar áfengi komi við sögu veiti það hins vegar góða vernd gegn hjartaáfalli. Greint er frá niðurstöðunum í ritinu Alcohol.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×