Innlent

Afar þakklát fyrir hjálpsemi vegfarenda

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ronja fer til dýralæknisins í dag til að láta taka saumana en það þurfti að sauma um 100 spor í aðra afturlöpp hennar.
Ronja fer til dýralæknisins í dag til að láta taka saumana en það þurfti að sauma um 100 spor í aðra afturlöpp hennar.
Vísir greindi í gær frá eftirtektarverðum viðbrögðum vegfarenda sem mynduðu varnargarð utan um hund sem lá slasaður á jörðinni við afleggjarann að Hafravatni. Vísir hafði samband við Ingu Kristínu Hafliðadóttur, eiganda Ronju, sem er 11 mánaða gömul Labradortík.

„Við búum þarna við Suðurlandsveg hjá Hafravatnsafleggjara og vorum á leið með Ronju í pössun í fyrsta skipti. Það er eins og hún hafi fundið á sér að hún væri að fara frá okkur því hún hljóp þarna í burtu frá okkur. Það hefur hún aldrei gert áður,“ segir Inga.

„Ég hljóp út til að leita að henni og var hinum megin við veginn. Ég sé hana ekki þar sem hún var komin yfir veginn en hún hlýtur að hafa séð mig því hún hleypur af stað. Þá kem ég auga á hana og sé þegar er keyrt á hana.“

Inga segir að ökumaður bílsins sem keyrði á Ronju hafi keyrt út í kant, stoppað og hringt á lögregluna. Lögreglan gat ekki komið en maðurinn lét Ingu hafa nafnspjaldið sitt svo hún gæti látið sig vita ef Ronja væri mikið slösuð.

„Það voru síðan þrír eða fjórir bílar sem stoppuðu þarna hjá okkur og gáðu hvað væri að. Meðal annars komu þarna að hjón sem hringdu á dýralækni fyrir okkur,“ segir Inga.

Aðspurð segir hún að það hafi komið sér mikið á óvart hversu margir stoppuðu hjá þeim til að athuga hvort allt væri í lagi.

„Já, það kom mér mjög mikið á óvart. Maður heyrir meira af því í fjölmiðlum að fólk fari bara í burtu þegar það keyri á dýr og svo stoppar enginn til að athuga hvað hafi gerst. Þarna kom hins vegar fjöldi fólks að og lokaði eiginlega afleggjaranum svo við gætum hlúð að Ronju. Ég er afar þakklát öllum sem hjálpuðu okkur.“

Inga er að fara með Ronju til dýralæknisins á eftir í saumatöku og skoðun. Það þurfti að sauma um 100 spor í aðra afturlöpp hennar þar sem hún fékk mörg lítil sár við slysið. Inga segir löppina eiginlega hafa verið í henglum. Þá hafi ein táin þríbrotnað en það virðist ekki há Ronju mikið.

Inga segir dýralækninn sem saumaði Ronju hafa sagt að það gæti tekið allt upp í einn og hálfan mánuð fyrir hana að jafna sig, en það komi betur í ljós á eftir hvað hún þurfi til dæmis að vera lengi á sýkla-og verkjalyfjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×