Bíó og sjónvarp

Afar stressuð fyrir kossinn í Love Actually sem var fyrsti kossinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Joanna smellir kossi á kinn Sam
Joanna smellir kossi á kinn Sam
Leikkonan Olivia Olson segist aldrei hafa getað gert sér í hugarlund hve vinsæl kvikmyndin Love Actually yrði. Óhætt er að segja að hún sé orðin fastagestur á skjám fólks víða um heim en myndin skartar einvala liði leikara og er afar vinsæl. Þrettán ár eru liðin síðan myndin kom út.

Flestir þekkja vel til myndarinnar sem fjallar um ástina frá ýmsum sjónarhornum, ómögulega ást, ást barna, ást efri stétta við þá neðri og þar fram eftir götunum. Olson leikur hina ungu Joönnu sem skólabróðir hennar Sam fellur fyrir.

Til að gera langa sögu stutta þá endar þeirra saga fallega og smellir Joanna meðal annars kossi á kinn hins unga Sam, sem er handviss að hann er ástfanginn af henni. 
Thomas Brodie-Sangster fór með hlutverk Sam í myndinni.

„Þetta var fyrsti kossinn minn, og á skjánum líka,“ segir Olson í viðtali við E-online sem má sjá hér að neðan.

„Ég var mjög stressuð af því ég var pínulítið skotin í Thomas á sínum tíma og svo hafði ég líka áhyggjur af því ég var hávaxnari en hann,“ segir Olson.

„Það er frábært að fyrsta myndin sem ég lék í varð að sígildri jólamynd,“ segir Olson. Það sé spennandi að fólk sé enn að tala um myndina.

Olson minnist ráða sem Emma Thompson, sem fer með hlutverk í myndinni, deildi með leikurunum ungu hvernig maður ætti að fara að því að gráta. Thompson leikur konu sem lendir í því að eiginmaður hennar fer að sýna yngri konu áhuga.  Olson hefur eftir Emmu:

„Ég set mig í spor þess sem ég leik, ég hugsa ekki um neitt sorglegt. Ég hugsa bara um það hvernig mér myndi líða ef eiginmaður minn væri að halda framhjá mér.“

„Við krakkarnir í myndinni fylgdumst grannt með þegar atriðin voru skotin og við vorum full af aðdáun gagnvart henni og Alan Rickman,“ segir Olson. Rickman leikur eiginmann Thompson.

Að neðan má sjá stiklu úr myndinni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×