Innlent

AFar hörð gagnrýni á veiðigjaldafrumvarpið

Svavar Hávarðsson skrifar
Krónunum fækkar í ríkiskassann en álögur þyngjast á útgerðina, segir LÍÚ
Krónunum fækkar í ríkiskassann en álögur þyngjast á útgerðina, segir LÍÚ Fréttablaðið/JónSigurður
Tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum á næsta fiskveiðiári verða átta milljarðar króna, eða einum milljarði minni en í ár. Tekjur af veiðigjöldum lækka um tæpa tvo milljarða á næsta ári að óbreyttu.

Frumvarp til laga um veiðigjöld var lagt fram á Alþingi síðla dags í gær eftir umfjöllun í þingflokkum stjórnarflokkana. Samkvæmt frumvarpinu nema veiðigjöld níu og hálfum milljarði króna á næsta fiskveiðiári, miðað við 515 þúsunda þorskígildistonna heildarafla. Frádráttarliðir útgerðanna gætu numið einum og hálfum milljarði og tekjur ríkissjóðs því orðið átta milljarðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra sagði í viðtali við fréttastofu í gær að frumvarpið væri skýrara en verið hefur og svar við ákveðnum neikvæðum röddum sem hafa snúið að útreikningum á síðustu árum. Hann telur dreifingu gjaldanna skynsamari en verið hefur.

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ, gagnrýnir harðlega hvernig staðið var að gerð frumvarpsins, sem kemur fram þegar rúm vika lifir af vorþingi. Ekkert hafi verið gert til að greina hvað sjávarútvegurinn geti borið í gjöld, frekar en á undanförnum árum.

„Það er engin hugsun í því hvað við viljum sjá íslenskan sjávarútveg verða til framtíðar; hvort hann haldi samkeppnisstöðu sinni í markaðssetningu og gæðum. Það vantar alla upplýsta umræðu um hvert þetta leiðir okkur,“ segir Kolbeinn og bætir við að þrátt fyrir krónutölulækkun í ríkiskassann þá séu álögurnar á greinina þyngri en þær voru í ljósi verri afkomu í dag.

„Það er einfaldlega hent fram tölu sem er hvorki meira né minna en 35% af hagnaði útgerðarinnar. Við það bætist síðan tekjuskatturinn og þetta samsvarar því, reiknað sem tekjuskattur, að greinin sé að greiða 48% tekjuskatt á árinu 2012. Síðan þá hefur afkoman versnað um 25 til 35%,“ segir Kolbeinn og vill minna á gagnrýni núverandi stjórnarflokka á hvernig fyrri ríkisstjórn hélt á málum við lagasetningu fyrri ára.

Spurður hvort í raun sé ekki um þyngri álögur á útgerðina að ræða segir Sigurður að hann geri sér grein fyrir að útgerðin telji frumvarpið ekki nægilega jákvætt miðað við versnandi afkomu greinarinnar, og horfurnar daprar. „Þetta er augljós málamiðlun um að við þurfum tekjur í ríkissjóð og það er eðlilegt að greitt sé gjald fyrir auðlindina. Hversu hátt gjaldið á að vera á hverjum tíma er umdeilanlegt en við teljum þetta skynsamlegustu leiðina sem hægt er að fara,“ sagði Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×