Enski boltinn

Áfall fyrir Newcastle: Elliot frá í hálft ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
EM í Frakklandi er úr sögunni hjá Elliot.
EM í Frakklandi er úr sögunni hjá Elliot. vísir/getty
Rob Elliot, markvörður Newcastle United, verður frá keppni næsta hálfa árið vegna hnémeiðsla sem hann varð fyrir í vináttulandsleik Írlands og Slóvakíu í Dublin í gær.

Elliot meiddist þegar hann reyndi að koma í veg fyrir mark Miroslavs Stoch á 14. mínútu. Darren Randolph tók stöðu hans í markinu. Leiknum lyktaði með 2-2 jafntefli.

Þetta er mikið áfall fyrir Newcastle en aðalmarkvörður liðsins, Hollendingurinn Tim Krul er einnig frá vegna meiðsla. Krul sleit krossband í hné í byrjun október en Elliot hefur varið mark Newcastle síðan þá.

Hinn 29 ára gamli Elliot hefur leikið 21 leik með Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og verið meðal bestu manna liðsins.

Gera má ráð fyrir því að Karl Darlow verði í marki Newcastle í þeim átta leikjum sem liðið á eftir. Darlow er nær algjörlega óreyndur í efstu deild en hann hefur aðeins spilað einn deildarleik í vetur.

Newcastle situr í 19. og næstneðsta sæti deildarinnar með 25 stig, þremur stigum frá öruggu sæti. Liðið mætir Norwich í sannkölluðum sex stiga leik á laugardaginn.


Tengdar fréttir

Benitez: Newcastle er sofandi risi

Rafa Benitez, nýráðinn stjóri Newcastle, hefur fulla trú á því að þeir svart-hvítu úr norðrinu geti haldið sér uppi í ensku úrvalsdeildinni. Newcastle á risaleik framundan í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×