Innlent

Áfall að geta ekki gist hjá barninu á vökudeild

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Móðir stúlku sem var hætt komin í fæðingu segir það hafa verið áfall að hún og barnsfaðirinn hafi ekki getað gist hjá barninu á vökudeildinni. Hún gagnrýnir aðstöðuleysi á deildinni og telur brýnt að bæta þar úr.

Þetta er hún Tinna en hún kom í heiminn 26. júlí síðastliðinn eftir fjörtíu vikna meðgöngu móður sinnar með nokkrum látum. Þegar Berglind Aðalsteinsdóttir, móðir hennar, kom á fæðingardeildina kom í ljós að barninu var farið að blæða út og var framkvæmdur bráðakeisari.

„Hún hafði misst heilmikið blóð og var án lífsmarks fyrst eftir komu í heiminn en sem betur fer þá tók hún fljótt við sér eftir að hafa fengið viðeigandi meðferð og vökvagjöf og neyðarblóð en í framhaldinu þá er hún lögð inn á vökudeildina í svokallaða kælimeðferð og er haldið sofandi fyrstu sólarhringana,“ segir Berglind.

Erfiðir sólahringar á tóku við hjá Berglindi og manni hennar meðan beðið var eftir því að það kæmi í ljós hvernig heilinn og önnur líffærakerfi hefði þolað áfallið.

Tinna hafði misst heilmikið blóð og var án lífsmarks fyrst eftir komu í heiminnVísir
„Það kom okkur verulega á óvart hversu þröngt er um starfsemina á vökudeildinni og lítið sem ekkert, lítil sem engin, aðstaða fyrir foreldra. Það var heilmikið áfall að komast að því að aðstaðan biði ekki upp á það að foreldrar gisti hjá börnum sínum á vökudeild,“ segir Berglind.

Berglind gagnrýnir það aðstöðuleysi sem er á vökudeild. „Það er bara mjög erfitt að fara frá barninu sem er inniliggjandi á spítala,“ segir Berglind.

Berglind er sérnámslæknir í Noregi og hefur kynnt sé vel aðstöðu á vökudeildum víðar um heim. Hún segir nýrri  vökudeildir gera ráð fyrir því að foreldrar dvelji hjá börnum sínum alla sólarhringinn. „Það er stutt með rannsóknum sem að sýna það að það hafi jákvæð áhrif bæði á barnið og foreldrana og komi fram jafnvel í styttri legutíma, betri tengslamyndun og vissulega hefur það líka góð áhrif á brjóstagjöfina,“ segir Berglind

Tinna hefur dafnað vel og bendir allt til að hún sé fullkomlega heilbrigð. Berglind segir að það hefði gert mikið fyrir þau hjónin að geta verið hjá henni allan sólarhringinn fyrstu dagana. Brýnt sé því að bæta úr aðstöðunni  á deildinni sérstaklega í samhengi við fyrirhugaða byggingu nýs Landspítala.

„Mér finnst grátlegt að vita til þess að það eigi að fara á stað með uppbyggingu á nýjum Landspítala án þess að það sé gert ráð fyrir nýrri vökudeild,“ segir Berglind.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×