Skoðun

Af stríðsástandinu í miðborginni

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar
Kæri Hjálmar Sveinsson. Nokkrir mánuðir eru nú liðnir síðan ég skrifaði þér síðast og bauð þér í rúnt um Reykjavík svo þú gætir séð og kynnst ófremdarástandinu í umferðarmálum í borginni. Þú komst með og það var fínt en ekkert hefur frést af því hvort og þá hvernig þið hjá borginni ætlið að bregðast við því ófremdarástandi sem er í umferðarmálum borgarinnar hvað ferðaþjónustuna varðar. Mig langar því til að hnykkja á nokkrum atriðum.

Ferðamenn lenda á öllum tímum sólarhringsins og koma um miðja nótt eða snemma morguns á hótel í Reykjavík. Það er sem stríðsástand sé í miðborginni á nóttunni og morgnana um helgar á sumrin þegar háannatími er í ferðaþjónustunni. Ferðamönnum dauðbregður að sjá dauðadrukkna Íslendinga valsandi um göturnar hrópandi og kallandi, jafnvel ryskingar og ofbeldi. Auðvitað hrýs þeim hugur við að taka ferðatöskurnar sínar og ösla glerbrotin upp í ökkla með áfengisfnykinn og hlandlyktina í nösunum. Það er nefnilega ekkert venjulegt rusl sem þekur götur og stéttar. Og það virðist ekkert þrifið fyrr en með morgninum eftir að ferðamennirnir eru lagðir af stað í ferðirnar sínar.

Okkur mörgum sem vinnum í ferðaþjónustunni líst ekkert á að senda ferðamennina út á göturnar með ferðatöskurnar sínar í eftirdragi við þessar aðstæður fyrir nú utan hvað það er leiðinlegt að ferðamennirnir sjái höfuðborgina svona enda súpa þeir margir hveljur þegar þeir sjá ástandið. Kollegar mínir hafa sumir lagt og lokað bílunum sínum og veitt ferðamönnunum fylgd á hótelið þó að það sé alls ekki í þeirra verkahring en hvað gerir maður ekki fyrir öryggið þegar skelkað fólk er annars vegar.

Veðrið á Íslandi getur verið vont. Í vetur liðu varla þrír sólarhringar milli snjóstorma. Oft var ófærð á götum, bæði í borginni og úti á landi. Enginn veit hvernig næsti vetur verður. Íslendingar sjálfir, hvort sem þeir búa í miðborginni eða úthverfunum, draga ekki ferðatöskur á eftir sér hálfan, einn, tvo eða fleiri kílómetra í slabbi, stormi, stórhríð eða beljandi rigningu til að komast í rútu á alþjóða- eða innanlandsflugvöllinn. Af hverju að ætlast til þess af erlendum ferðamönnum? Ferðamennirnir okkar eru í fríi. Þeir eru að heiðra okkur með heimsókn sinni. Þeir koma til landsins forvitnir að kynnast menningu okkar og náttúru. Þeir eru að hjálpa Íslandi að rísa upp úr rústum hrunsins og eyða miklum peningum til að njóta verunnar hér. Þess vegna eiga þeir rétt á því að geta keypt sér far á flugvöll eða til baka með smárútum. Ekkert er hins vegar gert til að auðvelda þessa þjónustu og frekar reynt að auka skipulagsleysið og hamla því að hún sé veitt ef eitthvað er.

Gæti skilað borginni tekjum

Gistihúsum og hótelum hefur verið dritað út um alla borg, sérstaklega miðborgina, alltaf án þess að nokkurt tillit sé tekið til samgönguþjónustu við ferðamennina. Það er gríðarlegt vandamál og til skammar að ekki séu stæði fyrir rútur í grennd við gististaði. Ég legg því til að borgin skyldi alla gististaði til að leigja átta metra rútustæði við alla gististaði allt árið þannig að rútur geti sótt gesti þangað eða skilað þeim. Þannig væri því stýrt hvar rútur, litlar sem stórar, mega stoppa til að taka fólk eða skila af sér. Þessi leiga gæti skilað borginni ágætis tekjum á ársgrundvelli og þessar tekjur mætti nota til að bæta og laga gatnakerfið og koma upp rútustæðum á helstu umferðaræðum eins og við Hverfisgötuna þar sem bráðvantar að koma upp nokkrum rútustæðum. Þá legg ég til að borgin taki öll bílastæðin sunnan megin við Hallgrímskirkju undir rútustæði því að þangað fara ferðamenn og skila kirkjunni háum tekjum.

Ég vona Hjálmar að þú hafir lesið þessa grein og skiljir hvað ég er að fara. Landsmenn allir – rétt eins og starfsmenn ferðaþjónustunnar – eiga rétt á því að vita hvað er að gerast í höfuðborginni. Þess vegna óska ég eftir svörum um það hver stefnan sé varðandi stæðamál við gististaði, hvaða ákvarðanir hafi verið teknar eða stefnt sé að því að taka til við að bæta úr vandanum og hvernig framtíðarsýnin sé varðandi stæðamál í miðborginni og við gististaði. Einnig óska ég eftir upplýsingum um þær úttektir og eða greinargerðir sem þið byggið stefnumótun ykkar og ákvarðanir á. Það skiptir nefnilega máli að vita hvert maður stefnir og hvers vegna.




Skoðun

Sjá meira


×