Skoðun

Af laxfiskum í Þjórsá o.fl.

Gústaf Adolf Skúlason skrifar
Gísli Sigurðsson íslenskufræðingur ritar grein í Fréttablaðið 28. janúar þar sem hann vænir undirritaðan m.a. um að fara með „margtuggin ósannindi“ í grein um rammaáætlun tveimur dögum fyrr. Þá hefur hann m.a. uppi stór orð um meint áform Landsvirkjunar um alþjóðlegt brautryðjendastarf með seiðaveitum og um það sem hann kallar ráðgjöf færustu alþjóðlegra sérfræðinga í áhrifum virkjana á göngufiska. Þeir sérfræðingar hafa raunar aldrei verið nafngreindir en á vegum sama aðila og vísaði upphaflega til þeirra kom hingað erlendur þörungafræðingur og fjallaði um reynslu úr tiltekinni á erlendis. Í kjölfar þessara athugasemda var skipaður sérstakur hópur sérfræðinga á vegum rammaætlunar til að fjalla um möguleg áhrif virkjana á laxfiska í Þjórsá, og erlendir sérfræðingar fengnir til að leggja mat á þá vinnu. Niðurstaða allrar þessarar yfirferðar er í raun sú að ekkert nýtt hafi komið fram frá því að Veiðimálastofnun fjallaði um málið í tengslum við umhverfismat framkvæmda árið 2002, þar sem umræddar virkjanir í Þjórsá voru samþykktar með skilyrðum.

Sáttin var rofin

Megintilgangur Gísla virðist vera sá að andmæla skrifum undirritaðs þess efnis að á vettvangi stjórnmálanna hafi verið rofin sátt um rammaáætlun, þegar horfið var frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar 2. áfanga. Hér verður sú lýsing ekki endurtekin, á hinu tvöfalda pólitíska ferli sem færði fyrst tólf og síðar sex orkukosti í átt frá nýtingu til verndar. Athyglisvert er að Gísli segir einmitt tímabundinn meirihluta á Alþingi ekki hafa heimild til að taka pólitískar ákvarðanir sem gangi þvert á rökstudd fagleg sjónarmið. Þar fer hann raunar rangt með, endanlegt ákvörðunarvald er einmitt á hendi Alþingis, þótt sáttin grundvallist á að farið sé að hinum faglegu niðurstöðum. Gísli einbeitir sér síðan að skrifum um fyrrnefnda virkjanakosti í neðri hluta Þjórsár, þ.e. þrjá af þeim átján orkukostum sem færðir voru til á vettvangi stjórnmálanna. Vandséð er hins vegar hvernig laxfiskarnir í Þjórsá ættu að geta valdið því að t.d. Skrokkölduvirkjun var færð úr nýtingarflokki í biðflokk.

Seiðaveitur eru vel þekkt tækni erlendis. Í tilviki fyrirhugaðra virkjana í neðri hluta Þjórsár er gert ráð fyrir að gripið verði til slíkra mótvægisaðgerða strax frá upphafi, en gjarnan er gripið til slíkra aðgerða eftir á.

Hitt er svo annað mál, að það á alls ekkert að vera hlutverk verkefnisstjórnar um rammaáætlun að fjalla um hvort skilyrði mats á umhverfisáhrifum framkvæmda séu uppfyllt. Verkefnisstjórnin á að vinna sína vinnu á grundvelli laga um umhverfismat áætlana. Það er svo hlutverk framkvæmdaleyfisgjafans að taka afstöðu til þess hvort mætt hafi verið skilyrðum umhverfismats framkvæmda.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×