Skoðun

Af jólasveinum (svarbréf)

Bryndís Jónsdóttir skrifar
Kæri Pawel

Goðsagnavera eða ekki, jólasveinarnir þrettán eru hluti af menningu okkar Íslendinga og það að fá í skóinn hefur verið fastur punktur í uppvexti okkar flestra. Fyrir því má alveg bera virðingu og það er ekki þitt að tilkynna börnum þessa lands að jólasveinninn sé ekki raunverulegur í dagblaði sem fer inn á öll heimili.

Af einhverjum ástæðum hafa þó sumir jólasveinar lent á villigötum þegar kemur að því að færa börnum gjafir í skóinn. Ástæðurnar geta verið margar. Kannski eru einhverjir með samviskubit vegna skorts á samverustundum með börnum sínum vegna vinnu eða annarra aðstæðna. Kannski hafa þeir sem eru ríkari en aðrir ekki áttað sig á að þetta er ekki besti vettvangurinn til að gefa dýrar gjafir.

Tilmæli um að jólasveinninn stilli skógjöfum í hóf eru ekki sett fram vegna þess að enginn má vera betri en annar eða fá meira en annar. Sá veruleiki blasir við börnum alla daga í daglegu lífi. Þetta eru heldur ekki nornaveiðar eða árás á þá sem hafa efni á að gefa dýrar gjafir heldur ósk til jólasveinsins um að þau börn sem trúa á hann í einlægni, og það gera þau mörg, þurfi ekki að upplifa að einnig á þessum vettvangi þurfi þau að upplifa mismunun. Einungis er verið að benda jólasveininum á að nota ekki skógjafir til að gera upp á milli barna. Dýrari gjafir má gefa við önnur tækifæri.

Sjö ára sonur minn trúir á jólasveininn. Hann vaknar fyrir allar aldir uppfullur af spenningi og kíkir í skóinn. Litir, smádót, mandarínur, sælgæti, allt er þetta jafn vel þegið. Þessi tími er þrunginn eftirvæntingu og gleði og lítill kútur fer snemma í háttinn, í sínu rúmi, og vaknar snemma afþví að þetta er allt svo spennandi. Það er ekki þitt eða mitt að taka það af honum. Litlir drengir eða stúlkur sem leika saman glöð að degi og haga sér jafn vel eiga ekki að þurfa að draga gjörðir jólasveinsins í efa að morgni. Þess vegna biðjum við jólasveininn að stilla verðmæti skógjafa í hóf.

Með góðri jólakveðju.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×