Skoðun

Af hverju náttúruverndargjald í Reykjahlíð? Seinni grein

Ólafur H. Jónsson skrifar
1)Hvers vegna koma ferðaþjónustuaðilar af fjöllum varðandi gjaldtöku 2014?

Á vordögum 2013 var Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) og stærstu aðilum þeirra sem taka á móti skemmtiferðaskipum tilkynnt að gjaldtaka myndi hefjast í Reykjahlíð sumarið 2014. Þeim skilaboðum virðist ekki hafa verið komið til viðskiptavina þeirra erlendis. Þvert á móti birtist stöðugur áróður og rangfærslur í fjölmiðlum. „Viljum ekki skúra á hvern stað, ekki fólk með posa, þetta mun skaða heildarímynd Íslands“ var sagt og ýmislegt þaðan af verra svo sem tillögur um eignarnám.

Flestir eru sammála um að gjaldtaka sé nauðsynleg, en eru á móti því að einkaaðilar sjái um sína landareign sjálfir. Hvers vegna? Hefur aðkoma ríkisins verið til fyrirmyndar? Hver eru rökin? Ríkið hefur ekki sýnt það í gegnum tíðina að það standi traustari vörð um náttúruna en einkaaðilar, eða hvað? Allt er þetta dapurlegt og ekki í takt við óskir 90% erlendra ferðamanna skv. opinberum könnunum, sem eru reiðubúnir til að greiða 600-1.200 kr. inn á hvern stað.

Hvers vegna þessi andstaða við náttúruverndargjald af hálfu fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem selja skipulagðar ferðir inn á land í einkaeigu? Náttúran þarf því aðstoð frá eigendum sínum alveg sama hvort það eru einkaaðilar eða ríkið. Nær engu skattfé hefur verið varið til verndar náttúruperlum Íslands. Samt sem áður fær ríkið árlega 25-30 milljarða í virðisauka frá ferðamönnum. Hvað er í gangi?

2)Hvað með lög um almannarétt og náttúruvernd? Jónsbók gerði varla ráð fyrir að t.d. um Mývatnssveit færu 400.000 manns á ári eins og er nú að gerast? Um leið og ferðaþjónustuaðilar selja og hagnast á skipulögðum/auglýstum ferðum sínum inn á land í einkaeigu eins og Reykjahlíð þá getur það varla staðist að almannaréttur sé enn í gildi.

Í 14. grein náttúruverndarlaga stendur:

„Mönnum er heimilt án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa að fara gangandi, á skíðum, skautum, óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar.“

Síðan segir:

„Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustíga umferð manna og dvöl á afgirtu og óræktuðu landi.“

Hvergi stendur að eigandi megi ekki taka gjald t.d vegna náttúruverndar eða vegna öryggis á viðkomandi stað. Við ætlum ekki að hlutast til um það hvað ríkið gerir með sínar jarðir.

3)Setti ríkið ekki 10 milljónir í að byggja upp við Hveri austan Námaskarðs?

Hér er mikill misskilningur í gangi. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið óskaði eftir því að aðeins sveitarfélög gerðu lista yfir þá staði sem mikill fjöldi ferðamanna heimsækir. Þá aðeins til brýnna verkefna á ferðamannastöðum er lúta að verndun náttúru og öryggi ferðamanna.

Eigendum félags með stærstu jörð á Íslandi var ekki send slík beiðni eða óskalisti, bara sveitarfélögum! Þrátt fyrir það eru svæði eins og Dettifoss, Hverir og Leirhnjúkur/Víti í Reykjahlíðarlandi. Er þetta ekki skattfé allra Íslendinga? Af hverju þessi mismunun?

Skútustaðahreppur (sem leigir stórt landsvæði af landeigendum) sendi að sjálfsögðu inn óskalista yfir staði sem uppfylltu þessi skilyrði, t.d Dimmuborgir (eign Landgræðslunnar), Hveri (eign Reykhlíðunga), Skútustaðagíga (eign ríkis að meirihluta) og Hverfell/Hverfjall (eign Vogamanna).

Staðan er nú sú að Skútustaðahreppur fær styrkinn, en hreppurinn á ekki svæðið við Hveri! Það verður að nota styrkinn til uppbyggingar við Hveri, hvergi annars staðar. Af hverju fengu landeigendur Reykjahlíðar ekki möguleika á að senda inn beiðni/óskalista? Veit fólk að af þessum 384 m.kr., sem var úthlutað í 88 verkefni nú 30. maí, fengu sveitarfélög úthlutuð 49% fjármagnsins, ríkistofnanir/Umhverfisstofnun/Skógrækt ríkisins 51% og einkaaðilar 0%! Er þetta ekki forsmekkurinn að því sem koma skal með nýjum náttúrupassa og úthlutun fjármuna sem hann skapar í framtíðinni, eða hvað? Svari hver fyrir sig, en ekki rugla saman Skútustaðahreppi og landeigendum Reykjahlíðar.

4)Hvernig sé ég fyrir mér gjaldtöku á Íslandi? Ég hef áður sett fram þá hugmynd að gjaldtaka verði hafin á t.d. 10-12 stærstu og mest sóttu stöðum Íslands eins og þekkist víða erlendis. Mývatnssveit í heild sinni gæti verið eitt af þessum svæðum. Hér væri því eingöngu um samvinnu milli einkaaðila, sveitarfélaga og ríkis að ræða, sem eiga þessar náttúruperlur, en ekki samtaka. Með rafrænni samtengingu er þetta mjög auðvelt í framkvæmd. Jafnvel væri hægt að hafa eitt gjald inn á alla þessa staði. Allt þetta er útfærsluatriði.

Það sem vakir fyrir landeigendum Reykjahlíðar er að vernda náttúruna og skapa góða ímynd þegar til lengri tíma er litið.

Verið velkomin á upplýsinga- og sölusíðu verkefnis okkar: www.natturugjald.is




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×