Skoðun

Af hverju 1. maí?

Ólafía B. Rafnsdóttir skrifar
Fyrir rúmum 120 árum var styttri vinnutími meginkrafan í fyrstu kröfugöngunni sem farin var á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks, 1. maí. Baráttan fyrir mannsæmandi vinnutíma hafði þegar kostað blóðug átök – nú var kominn vettvangur fyrir launafólk að koma saman og láta að sér kveða. Smám saman varð 1. maí að þeim alþjóðlega baráttudegi sem við tökum stolt þátt í hér á landi. Við minnumst þess að réttindin sem við njótum í dag eru til komin vegna fórna þeirra sem á undan okkur gengu. Þess vegna er 1. maí frídagur – þess vegna förum við í kröfugöngu á þessum degi.

Blóðug átök og verkföll

Upphaf þess að 1. maí var gerður að alþjóðlegum baráttudegi verkafólks má rekja til kröfu bandaríska verkalýðssambandsins um átta tíma vinnudag seint á 19. öld. Vinnudagurinn var bæði langur og strangur, tíu tímar hið minnsta, og þessari kröfu hafði lengið verið haldið á lofti. Þann 1. maí árið 1886 lögðu hundruð þúsunda manna niður störf víðs vegar um Bandaríkin til að leggja áherslu á kröfuna um átta stunda vinnudag. Æ fleiri bættust í hópinn á næstu dögum og í Chicago kom til blóðugra átaka milli lögreglu og almennings á samstöðufundi á Haymarket-torginu. Mannfall varð í röðum beggja og fjöldi særðist.

Bandaríska verkalýðssambandið hélt baráttunni áfram og ákvað að 1. maí yrði helgaður kröfunni um átta tíma vinnudag, boðað var til verkfalla um gervallt landið á þessum degi árið 1890. Fulltrúar á þingi Annars alþjóðasambandsins, sem haldið var í París 1889 á aldarafmæli frönsku byltingarinnar, tóku upp þessa kröfu og boðuðu til aðgerða á þessum degi 1890. Skorað var á verkalýðssamtök og verkafólk um allan heim að taka þátt. Þann 1. maí 1890 voru kröfugöngur farnar víða bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu í fyrsta skipti á þessum merka degi í sögu verkalýðshreyfingarinnar.

Er þörf á því að hafa opið?

1. maí hefur verið lögskipaður frídagur á Íslandi frá árinu 1966 og flestir sem eru við störf á þessum degi vinna við að tryggja öryggi og velferð okkar hinna eða sinna þeim sem þurfa aðstoðar við. Ég segi flestir því það hefur færst í aukana að verslanir og þjónustuaðilar hafi opið. Rauðir dagar eru frídagar og á það alveg eins við um alþjóðlegan baráttudag verkafólks og um annan dag páska, þegar margar verslanir voru lokaðar í höfuðborginni eins og eðlilegt er. Er þörf á því að hafa svona margar verslanir opnar á þessum degi sem helgaður er baráttunni fyrir réttindum launafólks? Höfum við kannski gleymt því um hvað þessi dagur snýst?

Sjáumst í göngunni!

Hér á landi var kröfuganga 1. maí farin í fyrsta skipti árið 1923. Þetta var á virkum degi og þurfti fólk að taka sér frí úr vinnu til að taka þátt. Kröfurnar voru margvíslegar, sumar endurspegluðu stöðu þjóðfélagsmála á þessum tíma en aðrar voru gamalkunnar, eins og segir í umfjöllun um þennan dag í sögu ASÍ. Í áranna rás hafa komið fram nýjar kröfur, en í grunninn eru þær alltaf eins.

1. maí er og hefur ætíð verið baráttudagur fyrir réttindum launafólks – dagur aðgerða þegar fólk kemur saman til að sýna mátt sinn og megin. Þótt ýmislegt hafi áunnist á síðustu áratugum er enn margt sem við þurfum að huga að og mikilvægt að halda baráttunni áfram. Í ár er yfirskrift 1. maí „Samfélag fyrir alla“. Nú beinum við kröftum okkar að því að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og jafnra tækifæra.

Ég skora á verslunareigendur að hafa lokað þann 1. maí og taka þátt í baráttunni. Við viljum öll það sama – betri kjör og mannsæmandi líf fyrir alla. Sjáumst í göngunni!




Skoðun

Sjá meira


×