Skoðun

Af einkaskólum, nýsköpun og grunnþjónustu

Adda María Jóhannsdóttir skrifar
Eins og fram kom í grein formanns bæjarráðs og fræðsluráðs Hafnarfjarðar, sem birtist þann 9. júní sl., hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar samþykkt nýjan einkaskóla í Hafnarfirði. Í desember sl. var samþykkt að veita skólanum starfsleyfi án þess þó að fjárheimildir væru fyrir rekstrinum í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016.

Þjónustusamningur vegna skólans var samþykktur í fræðsluráði þann 1. júní sl. og í bæjarstjórn þann 8. júní. Rétt er þó að benda á að í þeim þjónustusamningi er gert ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær greiði einungis með 45 nemendum en forsvarsmenn skólans hafa í sínum áætlunum gert ráð fyrir 120 nemendum í fullsetnum skóla. Rekstrargrundvöllurinn hlýtur því að teljast veikur.

Forsenda nýsköpunar?

Í umræddri grein er bent á að í málefnasamningi meirihluta bæjarstjórnar sé lögð áhersla á nýsköpun og fjölbreytni í skólastarfi. Á þeim forsendum er umræðan um einkaskóla einkum byggð. Það eru kaldar kveðjur til skólasamfélagsins í Hafnarfirði. Og eðlilegt að spyrja hvað grunnskólarnir sem reknir eru af bæjarfélaginu gætu gert fyrir þá fjármuni sem ætlaðir eru í hinn nýja einkaskóla. Það má telja nokkuð víst að þeir gætu nýst vel í ýmsa nýsköpun í skólastarfi. Það hefði verið kærkomin búbót, ef aukið svigrúm var að finna í fjárheimildum, að nýta þær á þeim vettvangi.

Leikskólar víkja fyrir einkaskóla

Það undrast margir þá forgangsröðun að hægt sé að ráðast í stofnun einkaskóla sem mun kalla á aukin útgjöld af hálfu bæjarins á sama tíma og leikskólaúrræðum er lokað í bænum. Á síðastliðnum tveimur árum hefur núverandi meirihluti þegar lokað tveimur leikskólaúrræðum og fyrir dyrum stendur lokun tveggja til viðbótar, þar á meðal eins elsta starfandi leikskóla bæjarins. Ástæða þessara lokana eru að sögn fulltrúa meirihlutans nauðsynlegar hagræðingaraðgerðir.

Í þágu einkavæðingar

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í fræðsluráði hafa gagnrýnt þá forgangsröðun sem birtist í þessum ákvörðunum. Í stað þess að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar og láta umframfjármuni renna til þeirra leik- og grunnskóla sem bærinn rekur ætla fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar að kosta tugum milljóna til þess að fjármagna einkaskóla á unglingastigi. Það er ekki forgangsröðun sem okkur hugnast.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×