Fótbolti

Ævintýralega vandræðaleg spurning á blaðamannafundi Schweinsteiger | Myndband

Bastian Schweinsteiger hefur fengið margar spurningar á ferlinum en líklega enga svona asnalega.
Bastian Schweinsteiger hefur fengið margar spurningar á ferlinum en líklega enga svona asnalega. vísir/getty
Þó fótbolti sé ört vaxandi íþróttagrein í Bandaríkjunum og engin deild stækkað jafnört og MLS-deildin á undanförnum árum vestanhafs eru Bandaríkjamenn aðeins á eftir öðrum þegar kemur að íþróttinni.

Það sannaðist best á blaðamannafundi MLS-liðsins Chicago Fire þar sem það var að kynna þýska heimsmeistarann Bastian Schweinsteiger til leiks en hann gekk óvænt í raðir liðsins frá Manchester United á dögunum.

Einn bandarískur blaðamaður á fundinum var ekki alveg með á nótunum og spurði einnar vandræðalegustu spurningar sem heyrst hefur. Hann sannaði svo með endurtekningu sinni að hann mismælti sig ekki.

„Er eðlilegt að búast við því að með tilkomu þinni geti Chicago barist um heimsmeistaratitilinn?“ spurði blaðamaðurinn.

Schweinsteiger og hinir tveir sem sátu með honum skildu ekkert hvað var í gangi og síst sá þýski sem skildi ekki hvað var að gerast. Til að forðast allan misskilning sagðist blaðamaðurinn ætla að umorða spurninguna og bjuggust þá flestir við einhverju eðlilegu. En svo varð ekki.

Hann spurði aftur: „Býstu við því Bastian, fyrst þú ert kominn hingað, að það sé raunverulegt að Chicago Fire geti orðið heimsmeistari?“

Á endanum var spurningin afgreidd þannig að blaðamaðurinn væri að tala um MLS-bikarinn en ekki heimsmeistarabikarinn og svaraði Scwheinsteiger þá spurningunni af mikilli fagmennsku.

Þessa svakalega vandræðalegu stund má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×