Erlent

Ætlar í keppni við Rússa um Norður-Íshafið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti á fundi með frumbyggjum í Alaska. Fundurinn var haldinn í gær í tengslum við ráðstefnu norðurskautsríkja um loftslagsmál og norðurslóðir.
Barack Obama Bandaríkjaforseti á fundi með frumbyggjum í Alaska. Fundurinn var haldinn í gær í tengslum við ráðstefnu norðurskautsríkja um loftslagsmál og norðurslóðir. NordicPhotos/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti ætlar að fjölga bandarískum ísbrjótum í Norður-Íshafinu. Hugmyndin virðist greinilega vera sú að mynda mótvægi við aukin umsvif Rússa á norðurslóðum.

Í minnisblaði frá Hvíta húsinu kemur fram að Rússar séu nú þegar með 40 ísbrjóta þar og að ellefu séu væntanlegir til viðbótar, en bandaríska strandgæslan sé einungis með þrjá ísbrjóta í flota sínum. Þarna verði að bæta úr til að tryggja að „Bandaríkin geti komið til móts við þjóðarhagsmuni okkar, verndað og stýrt náttúruauðlindum okkar og styrkt tengsl okkar á alþjóðavettvangi og heima fyrir“.

Í ávarpi sínu á ráðstefnu norðurskautsríkja um loftslagsmál, sem haldin var í Alaska í gær, lagði Obama áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum og hvatti aðildarríkin til þess að leggja sig betur fram í þeim efnum.

„Við erum ekki að bregðast nógu hratt við. Ekkert þeirra ríkja sem eiga fulltrúa hér er að bregðast nógu hratt við,“ sagði hann. „Og við skulum bara tala heiðarlega. Það hafa alltaf verið raddir gegn því að grípa til aðgerða."

Hann sagði það vitað nú orðið að athafnir manna hefðu í reynd áhrif á andrúmsloftið. „Á því leikur ­enginn vafi. Allt annað er pólitík,“ sagði Obama.

Sjálfur hefur hann hins vegar sætt gagnrýni fyrir að hafa fyrir fáum vikum veitt olíufyrirtækinu Shell leyfi til að bora eftir olíu í Norður-Íshafinu út af ströndum Alaska. Í tuttugu ár hafa olíuboranir á þessum slóðum verið bannaðar af umhverfisástæðum.

„Þetta tvennt stangast á,“ sagði bandaríski rithöfundurinn Bill McKibben á ráðstefnu sem haldin var í París í gær um leiðir til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. „Það er mjög erfitt fyrir Obama eða hvern sem er að segja: Sjáðu nú til, við tökum þetta mjög alvarlega, þetta er stærsta vandamál sem heimurinn hefur staðið frammi fyrir, en það er samt í góðu lagi að fara af stað og bora eftir nýjum olíulindum í Norður-Íshafinu.“

Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra í ríkisstjórn Obama og líklegur arftaki hans á forsetastól, er á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt ákvörðun hans um að veita Shell leyfi til olíuborana á norðurslóðum: „Norður-Íshafið er einstæður fjársjóður. Út frá því sem við vitum, þá er það ekki þess virði að taka áhættuna á borunum,“ sagði hún á Twitter-síðu sinni í ágúst, þegar Obama hafði tilkynnt um ákvörðun sína.

Á meðal þátttakenda á ráðstefnunni í Alaska í gær var Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu fjallaði hann þar um mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa til að sporna við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×