Erlent

Ætlar að skipuleggja herinn á ný með hraði

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Erdogan Tyrklandsforseti í hópi stuðningsmanna sinna, sem hafa fjölmennt út á götur undanfarna daga.
Erdogan Tyrklandsforseti í hópi stuðningsmanna sinna, sem hafa fjölmennt út á götur undanfarna daga. Vísir/EPA
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir að tyrkneski herinn verði endurskipulagður á mjög stuttum tíma.

Herinn fái „ferskt blóð“, eins og hann orðar það, í staðinn fyrir þær þúsundir hermanna sem hafa verið fangelsaðar eða reknar. Þetta sagði hann í viðtali við Reuters-fréttastofuna á fimmtudagskvöld.

Ummælin hafa vakið ugg meðal forystumanna Evrópusambandsins, sem ítreka áskoranir sínar til Erdogans að virða mannréttindi.

„Við skorum á tyrknesk stjórnvöld að virða réttarríkið, mannréttindi og grundvallarfrelsi, þar á meðal rétt allra þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli á að fá réttlát réttarhöld,“ segir í yfirlýsingu frá Federicu Mogherini, utanríkismálafulltrúa Evrópusambandsins, og Johannes Hahn stækkunarstjóra þess.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×