Innlent

Ætlar að fylgjast með framgöngu fíknó á þjóðhátíð

Jakob Bjarnar skrifar
Pétur Þorsteinsson furðar sig á viðhorfum Páleyjar og kallar eftir upplýsingum um framgöngu fíkniefnalögreglunnar á þjóðhátíð.
Pétur Þorsteinsson furðar sig á viðhorfum Páleyjar og kallar eftir upplýsingum um framgöngu fíkniefnalögreglunnar á þjóðhátíð.
Pétur Þorsteinsson, fyrrverandi skólastjóri og formaður Snarrótarinnar, hefur sent út boð þar sem hann auglýsir eftir framburði þeirra sem lenda í viðskiptum við fíkniefnalögregluna á þjóðhátíð í Eyjum.

Sjá: Pétur hefur lengi barist gegn refsistefnu sem framfylgt er í fíkniefnamálum.

Snarrótin, sem eru samtök um borgaraleg réttindi, telur að fjármunum skattgreiðenda sé betur varið með því að allt tiltækt lögreglulið sinni ofbeldisvörnum á hátíðinni, fremur en fórna „dýrmætum kröftum í að hundelta ungt fólk, til þess eins að koma því á sakaskrá fyrir hreinan tittlingaskít,“ eins og það er orðið í áskorun og auglýsingu eftir fréttum, framburði og jafnvel vídeó-klippum. „Við óskum jafnframt eftir fréttum af leitaraðgerðum lögreglunnar á leiðinni til Eyja, alveg sérstaklega ef hún lætur hunda sína þefa af hverjum manni, til dæmis í Landeyjarhöfn, án þess að um nokkurn grun um fíkniefnamisferli sé að ræða.“

Pétur bendir á tölvupóstfang samtakanna í þessu samhengi: snarrotin@snarrotin.is

Eins og fram hefur komið hefur bréf lögreglustjórans í Eyjum, Páleyjar Borgþórsdóttur, þar sem hún krefst þess af viðbragðsaðilum að þeir upplýsi fjölmiðla ekki um kynferðisbrot sem upp kunna að koma á þjóðhátíð, vakið mikla athygli. Á spjallsvæði Snarrótarinnar á Facebook furðar Pétur sig einkum og sér í lagi á þeim viðhorfum sem lýsa sér í orðum sem Páley lét falla í viðtali við DV: „Að mínu mati varðar mál líkt og fíkniefnamál meira við almannahagsmuni. Þó virðast fjölmiðlar fylgja kynferðisbrotum meira eftir og einhver bolti fer að rúlla.“


Tengdar fréttir

Spyr hvort einnig eigi að þagga niður önnur brot

Ráðgjafi hjá Stígamótum spyr hvað það sé við kynferðisbrot sem gerir þau þess virði að þagga niður. Þolendur séu einnig að öðrum brotum sem kunna koma upp á útihátíðum.

Telur bréfið í takt við kröfu Druslugöngunnar

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir það að kynferðisbrotamál fari í fjölmiðla eigi ekkert skylt við það hvernig tekið er á þeim innan kerfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×