Skoðun

Ætla þau ekki að gera neitt?

Björt Ólafsdóttir skrifar
Mörgum brá við að hlusta á læknahóp og hjúkrunarfræðing á Landspítalanum tala í Kastljósi í síðustu viku um alvarlega stöðu hans. Hingað til hafa stjórnendur verið orðvarir til þess að skapa ekki óöryggi og kvíða í samfélaginu. En það er orðið morgunljóst að starfsfólk Landspítalana getur ekki tryggt öryggi sjúklinga sinna svo vel sé og starfsfólk hvorki getur né á að bera þá ábyrgð.

Staðan á LSH hefur verið okkur stjórnmálamönnum vel kunn alveg síðan fyrir kosningar og auðvitað mun lengur. Stjórnendur og starfsfólk spítalans hefur treyst því að við virðum sérfræðikunnáttu þeirra og tökum mark á henni. Annað hvort búa ríkjandi stjórnvöld ekki yfir nægilegum skilningi á aðstæðum, eða þá að þeim er hreinlega sama. Ég veit eiginlega ekki hvort er verra.

Á þinginu hefur þessi alvarlega staða margoft verið rædd. Margir hafa lýst yfir þungum áhyggjum, og margir þingmenn hafa nálgast málið lausnamiðað og reynt að aðstoða við verkefnið. Fyrst er auðvitað að skyggnast fyrir um hvað stjórnvöld sjá fyrir sér, en erfiðast er að fá svör um hvað eigi að gera. Heilbrigðisráðherra hefur rætt um að selja ríkiseignir til þess að fjármagna uppbyggingu spítalans. Fjármálaráðherra hefur slegið í og úr með þá leið eftir aðstæðum en báðir hafa þeir talað um það í ræðum á Alþingi, að það sem standi helst uppbyggingu LSH fyrir þrifum sé að á síðasta kjörtímabili hafi það verið sett í lög að framkvæmdin eigi að vera á hendi hins opinbera. Á síðasta þingi var hins vegar samþykkt samhljóða þingsályktunartillaga um að skoða hinar ýmsu leiðir í fjármögnun LSH. Þarna stendur því enginn hnífur í kúnni.

Rætt á yfirborðinu

En málið er ekki rætt nema á yfirborðinu og á meðan við bíðum og hlustum á bergmálið af sjálfum okkur en engin svör, fer að teiknast upp ákveðin mynd. Eina fjármagnið sem stjórnvöld eru að setja í uppbyggingu á LSH á yfirstandandi fjárlögum fer í uppbyggingu sjúkrahótels sem stjórnvöld hafa boðið út til einkareksturs. Þar er forgangsröðunin. Hún getur haft sínar skýringar, og einkarekstur og fjölbreytt þjónustuform geta verið skynsamleg, en slíkt getur líka verið glapræði.

Á meðan ekkert er gert í málefnum LSH fer alltaf að verða meira aðkallandi að ræða, hvort einkaframkvæmdin sé Sjálfstæðisflokknum svo heilög að opinberi reksturinn verði fyrst keyrður í kaf. Svo verði einkavætt með hraði? Ef þetta er stefnan, þá er það alvarlegt mál. Þannig æfingar geta kostað mikið fé.

Stefna stjórnvalda þarf umfram allt að vera uppi á borðum. Og í allri umræðu um aðhald í ríkisfjármálum, vil ég í öllu falli vinsamlegast biðja menn að taka eyðileggingu á einu stykki spítala og daglegt fjáraustur í óhagræði með í reikninginn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×