Handbolti

Ætla mér lengra með þjálfaraferilinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ragnar er á leið á kunnuglegar slóðir.
Ragnar er á leið á kunnuglegar slóðir. fréttablaðið/valli
„Ég er á leiðinni aftur til Frakklands. Ég verð í þjálfarateymi Cesson-Rennes ásamt því að vera styrktarþjálfari félagsins og unglingaþjálfari,“ segir Ragnar Óskarsson, fyrrverandi landsliðsmaður, en hann hættir sem aðstoðarmaður Ólafs Stefánssonar hjá Val þar sem hann er á leiðinni utan.

Ragnar er öllum hnútum kunnugur í Frakklandi enda lék hann þar í ellefu ár á sínum tíma.

„Það er góður vinur minn að taka við liðinu og hann vildi fá mig með í teymið. Ég er því að horfa til lengri tíma með þessari ákvörðun. Það er uppbygging í gangi og þetta er mjög spennandi verkefni,“ segir Ragnar en Cesson-Rennes hafnaði í sjöunda sæti frönsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

Þar sem Ragnar er ekki kominn með nein þjálfararéttindi má hann ekki sitja á bekknum hjá liðinu næsta vetur þó svo hann sé aðstoðarþjálfari. Hann mun fara strax í það að ná sér í þjálfararéttindi er hann kemur utan.

Ragnar á sjö ára gamla dóttur í Frakklandi og hún er helsta ástæðan fyrir því að hann fer til Frakklands.

„Hún býr 40 mínútum frá því þar sem ég verð. Hún er það sem skiptir mestu máli í þessu. Ég vil komast sem næst henni. Tíminn líður fljótt og ég vil eðlilega fá að vera sem mest með henni. Þetta eru ár sem maður fær ekkert aftur,“ segir Ragnar.

Hann viðurkennir að hugurinn hafi í raun aldrei stefnt út í þjálfun þegar ferlinum lyki en nú er annað upp á teningnum.

„Þetta var aldrei stefnan en svona hefur þetta þróast. Ég var meira að horfa á styrktarþjálfunina en hef svo haft ótrúlega gaman af því að þjálfa eftir árið með Óla hjá Val. Það var frábær reynsla og lærdómsrík. Ég ætla mér að fara eitthvað lengra með þennan þjálfaraferil og það eru góðar líkur á því að ég verði næstu árin í Frakklandi. Þar hefur mér alltaf liðið vel og það hjálpar til að þekkja hvernig allt gengur fyrir sig hérna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×