Sport

Ætla ekki að aðlaga sinn leik að andstæðingnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það má búast við hörkuskemmtun þegar íslenska ruðningsliðið Einherjar mætir sterku þýsku liði í amerískum fótboltaleik sem fer fram í Kórnum í kvöld.

Þetta er þriðja árið í röð sem Einherjar, eina íslenska liðið sem æfir og keppir í amerískum fótbolta, mætir erlendu liði í Kórnum. Síðustu tvö ár hafa andstæðingarnir verið norskir en nú er þýskt lið í heimsókn, Starnberg Argonauts.

„Ég held að þetta verði svolítið svipað og þegar við kepptum síðast en þetta er klárlega sterkara lið en þá,“ segir Bergþór Kristjánsson, leikmaður Einherja.

Hlauparinn Ingi Þór Kristjánsson segir að liðið ætli að spila sinn leik, frekar en að aðlaga þeirra leik að andstæðingnum.

Amerískur fótbolti er afar vinsæll í Þýskalandi og íþróttin spiluð um allt landið. Starnberg Argonauts spilar til að mynda í fimmtu efstu deild en er samt með aðalþjálfara í fullu starfi og sex aðstoðarþjálfara þar að auki.

Þá er annað starfsfólk með í förinni til Íslands, svo sem nuddari, sjúkraþjálfari og ljósmyndari auk á fjórða tug leikmanna.

Leikur Einherja og Starnberg Argonauts hefst klukkan 20 í Kórnum í kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×