Viðskipti innlent

Ætla að tryggja fólki umtalsverðan sparnað

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365. Sameining 365 og Tals var samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í desember. Félagið gefur líka út Fréttablaðið.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365. Sameining 365 og Tals var samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í desember. Félagið gefur líka út Fréttablaðið. vísir
„Nú sameinast Tal og 365 undir merkjum 365 með nýjum litum, ásýnd og þjónustu þar sem við nýtum okkur styrkleika beggja fyrirtækja,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, um breytingar sem fyrirtækið kynnir í dag.

Meðal breytinga er að merki 365 fer úr fjólubláu í appelsínugult og að fyrirtækið býður nú í fyrsta sinn farsímaþjónustu. „Og það gerum við með þeim hætti að breyta viðskiptamódelinu á fjarskiptamarkaði með því að laga pakkana sem í boði eru að notkun hvers og eins.“

Sævar segir viðskiptavini því ekki lengur þurfa að setja sig inn í flóknar áskriftarleiðir heldur fari þeir alltaf inn í það mynstur sem henti í hverjum mánuði.

„Einn mánuðinn er notkun kannski lítil og þá fær fólk mjög mikið frítt.“ Þannig séu í boði fríar 60 mínútur og sms í farsíma og 20 gígabæta netnotkun, auk 100 mínútna í heimasíma.

„Ef fólk svo fer yfir þessa notkun þá er markmið okkar að við getum tryggt að það geti sparað sér umtalsverða fjármuni,“ segir hann. 




Farsímatilboð fyrirtækisins eru svo bundin sjónvarpsáskrift. Sævar segir að sjá megi á samanburði á raunreikningum fólks hjá öðrum á fjarskiptamarkaði að viðskiptavinir kunni margir hverjir að spara sér í fjarskiptakostnaði upphæðir sem séu hærri en til dæmis nemi svonefndum Skemmtipakka 365.

„Sumir spara meira og aðrir minna, það fer svolítið eftir notkunarmynstri hvers og eins.“

Nánari upplýsingar á 365.is.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×