Erlent

Ætla að senda fleiri hermenn til Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, undirbýr nú að senda fleiri hermenn til Írak. Tilgangur þeirra verður að hjálpa við að ná borginni Mosul úr haldi Íslamska ríkisins. Hermennirnir munu þjálfa heimamenn og leiðbeina þeim.

Nú þegar eru sérsveitarmenn að störfum í Írak. Ekki liggur fyrir hvort að senda eigi fleiri slíka. Hins vegar segir heimildarmaður AP fréttaveitunnar að senda eigi um 600 hermenn til Írak. Um 4.600 bandarískir hermenn eru nú staddir þar í landi.

Haider al-Abadi, forseti Írak, segir í tilkynningu að beiðni um fleiri hermenn hafi komið frá ríkisstjórn sinni og að Obama hafi samþykkt hana. Hlutverk þeirra verður ekki að taka þátt í bardögum.

„Það verða okkar eigin hermenn sem munu frelsa landið okkar,“ segir Abadi.

Í Bandaríkjunum er ekki mikill pólitískur vilji til þess að senda hermenn í hættu, eftir margra ára óvinsælt stríð í Írak. Hermennirnir sem eru þar núna hafa þó komist í hann krappann og taka þeir til dæmis þátt í aðgerðum sem miða að því að fella eða handsama mikilvæg skotmörk og að reyna að bjarga gíslum úr haldi vígamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×