Erlent

Ætla að nota köfnunarefnisgas við aftökur í Oklahoma

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mary Fallin, ríkisstjóri í Oklahoma, skrifaði undir lög sem heimila notkun efnisins í gær.
Mary Fallin, ríkisstjóri í Oklahoma, skrifaði undir lög sem heimila notkun efnisins í gær. Vísir/AFP
Oklahomaríki í Bandaríkjunum hefur sett lög sem heimila notkun köfnunarefnisgass til þess að taka fanga af lífi í stað banvænnar sprautu. Aðferðin felur í sér að fangar kafna þegar þeir eru þvingaðir til að anda að sér köfnunarefni í gegnum gasgrímu.

Mary Fallin, ríkisstjóri í Oklahoma, skrifaði undir lög sem heimila notkun efnisins í þessum tilgangi í gær. Hún og aðrir stuðningsmenn aftökuaðferðarinnar segja hana sársaukalausa fyrir fanga. Gasið gerir fólk meðvitundarlaust á innan við tíu sekúndum og drepur það á mínútum.

Þá hafa stuðningsmenn þessarar aðferðar bent á fjárhagslegan ávinning fyrir ríkið; einungis þurfi einn kút af köfnunarefnisgasi og gasgrímu. Samkvæmt Washington Post er þó ekki hægt að staðfesta hver raunverulegur kostnaður er við aðferðina enn þá.

Notkun á köfnunarefnisgasi við aftökur verður varaleið sé ekki hægt að taka fólk af lífi með banvænni sprautu einhverra hluta vegna.

Notkun á banvænum sprautum til að framfylgja dauðarefsingum hefur sætt nokkurri gagnrýni og hefur gengið erfiðlega fyrir ríki að kaupa lyfið sem notað er. Þegar hafa nokkur ríki hætt að nota sprauturnar og eru aðeins nokkrir dagar síðan að Tennesseeríki ákvað að aflýsa öllum aftökum.

Fá lyfjafyrirtæki og lyfsalar hafa áhuga á að skaffa lyfið og mikil andstaða hefur verið á meðal lækna við notkun lyfja við aftökur. Samtök svæfingalækna í Bandaríkjunum hafa til að mynda ályktað um fyrirhugaðar aftökur en evrópsk lyfjafyrirtæki hafa hótað því að hætta að selja lyf sín til Bandaríkjana, verði þau notuð í þessum tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×