Innlent

Ætla að koma fram á Þjóðhátíð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Hljómsveitirnar sem sögðust ætla að hætta við að koma fram á Þjóðhátíð í Eyjum, eru hættar við að hætta við. Í sameiginlegri yfirlýsingu hljómsveitanna og Þjóðhátíðarnefndar segir að haldin verði táknræn athöfn á föstudagskvöldinu á Þjóðhátíð með listamönnum, björguarsveitum og öðrum gæsluaðilum hátíðarinnar. Þá krefjast allir sem að yfirlýsingunni koma að upplýsingagjöf lögreglunnar verði samdæmd öðrum embættum.

Efnt verður til átaks til að vekja gesti Þjóðhátíðar til vitundar um alvarleika kynferðisbrota og mun þjóðhátíðarnefnd skipa starfshóp sem ætlað er að marka stefnu til næstu fimm ára. Óskað verður eftir því að starfshópurinn verði skipaður þeim sem best þekkja slík mál og þar á meðal fulltrúa Stígamóta.

„Það er krafa undirritaðra að lögregluumdæmin samræmi  upplýsingagjöf hvað kynferðisbrot varðar með það að leiðarljósi að skila skömminni til þeirra sem eiga að bera hana, gerenda,“ segir í yfirlýsingunni.

Yfirlýsinguna má lesa hér að neðan.

Nauðgun er einn versti glæpur sem manneskjur geta framið. Nauðgun getur skilið eftir sig stór sár sem fólk ber ævilangt. Allt of stór hluti þeirra sem verða fyrir nauðgun treysta sér ekki til að kæra. Af þeim nauðgunum sem eru kærðar leiða aðeins örfáar til sakfellingar. Yfirleitt vegna skorts á sönnunargögnum. Að ræða kynferðisbrot á opinskáan hátt er eitt af því sem hjálpað getur fórnarlömbum að skila skömminni þangað sem hún á heima. Skortur á umfjöllun veitir gerendum skjól til að fremja sín brot og brotin eiga sér stað víða – ekki bara á útihátíðum.

Aðstandendur Þjóðhátíðar í Eyjum ætla í samvinnu við bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum að efna til átaks til að vekja þjóðhátíðargesti til vitundar um alvarleika kynferðisbrota. Þjóðhátíðarnefnd mun skipa starfshóp sem marka mun stefnu til næstu 5 ára um hvernig standa megi enn betur að þessum málum á Þjóðhátíð. Óskað verður eftir aðkomu þeirra sem best þekkja, þar á meðal fulltrúa Stígamóta. Nauðganir eru vandamál sem snertir alla sem skipuleggja stórhátíðir en Þjóðhátíð hyggst ganga á undan með góðu fordæmi.

Vestmannaeyingar eru stoltir af því að eiga stærstu útihátíð landsins. Stór hluti þjóðarinnar hefur komið á þjóðhátíð Vestmannaeyja og langflestir eiga bara góðar minningar þaðan. Einstök fjölskyldustemning og náungakærleikur þjóðhátíðar, samkenndin sem birtist árlega í brekkusöngnum, gestrisni íbúa Hvítu tjaldanna; allt var þetta okkur innblástur að því að ná sátt í þessu máli.

Undirrituð vilja hvetja aðila til samstöðu gegn þeirri þjóðfélagslegu vá sem kynferðisbrot eru og nýta samstöðukraft sinn í að berjast saman. Þjóðhátíð er ekki undanskilin hvað slíkt varðar og getur gengið fram með fordæmi. Það er krafa undirritaðra að lögregluumdæmin samræmi  upplýsingagjöf hvað kynferðisbrot varðar með það að leiðarljósi að skila skömminni til þeirra sem eiga að bera hana, gerenda.

Þá má að lokum geta þess að listamenn, björgunarsveitir og aðrir gæsluaðilar á hátíðinni munu taka þátt í táknrænni athöfn vegna fyrrnefnds átaks á föstudagskvöldinu á þjóðhátíð og með því marka nýtt upphaf og vonandi eina skemmtilegustu og best heppnuðu þjóðhátíð frá upphafi.

Unnsteinn Manuel Stefánsson, tónlistarmaður

Elliði Vignisson, bæjarstjóri

Dóra Björk Gunnarsdóttir, þjóðhátíðarnefnd

Auk eftirfarandi hljómsveita:

Agent Fresco, Dikta, Emmsjé Gauti, GKRRetro Stefson, Sturla Atlas og Úlfur Úlfur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×