Innlent

Ætla að hlýða á rök verjenda um frestun vegna lögreglufulltrúans

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mirjam Foekja van Twuijver hlaut ellefu ára dóm. Verði dómurinn staðfestur í Hæstarétti verður um að ræða þyngsta fíkniefnadóm sem fallið hefur hér á landi.
Mirjam Foekja van Twuijver hlaut ellefu ára dóm. Verði dómurinn staðfestur í Hæstarétti verður um að ræða þyngsta fíkniefnadóm sem fallið hefur hér á landi. Vísir
Málflutningur í máli ríkissaksóknara á hendur hollenskri konu og íslenskum karlmanni mun fara fram næstkomandi miðvikudag í Hæstarétti. Verjendur höfðu farið fram á frestun um ótiltekin tíma í ljósi þess að lögreglufulltrúi sem stýrði aðgerðum sem miður fóru á vettvangi, og leiddu til ótímabærrar handtöku í stað þess að tálbeituaðgerð héldi áfram, sætir rannsókn héraðssaksóknara eftir alvarlegar ásakanir um árabil um óhreint mjöl í pokanum. Fulltrúanum hefur verið vikið tímabundið úr starfi á meðan rannsókn á honum stendur yfir.

Í bréfi Hæstaréttar til verjendanna, Björgvins Jónssonar sem er verjandi Mirjam Foekje Van Twuijver, og Vilhjálms H. Vilhjálmssonar sem er verjandi Atla Freys Fjölnissonar, kemur fram að málið verði til meðferðar miðvikudaginn 27. janúar. Verjendur fái hins vegar tækifæri til að sýna fram á að tilefni sé að fresta málinu vegna yfirstandandi rannsóknar á hendur lögreglufulltrúanum.



Dómarar í Hæstarétti ákveða hvort tilefni sé til að fresta málinu vegna rannsóknarinnar á hendur lögreglufulltrúanum.Vísir/GVA
Ellefu ár af tólf mögulegum

Málið er eitt umfangsmesta fíkniefnamál sem upp hefur komið hér á landi. Mirjam Foekje Van Twuijer fékk ellefu ára fangelsisdóm í október þrátt fyrir að hafa veitt lögreglu umtalsverða aðstoð í nokkra daga við fyrrnefnda tálbeituaðgerð í apríl í fyrra. 

Allt virtist ganga samkvæmt áætlun þegar Atli Freyr, sem veitti meintum fíkniefnum móttöku, var handtekinn fyrir utan Hótel Frón á Laugavegi í stað þess að honum yrði veitt eftirför. Hin meintu fíkniefni voru í raun gerviefni og eftirfararbúnaður sem voru komin um borð í bílinn þegar Atli Freyr var handtekinn.

Sérsveitarmaður framkvæmdi handtökuna en yfirmenn sérsveitar og lögreglu eru sammála um að það hafi ekki haft áhrif á úrslitaframgang málsins að Atli Freyr var handtekinn utan við hótelið. Sérsveitarmenn eru þekktir fyrir að fylgja fyrirmælum og skipunum. Ómögulegt er að draga af því aðra ályktun en að alltaf hafi staðið til að handtaka Atla Frey þó það hafi gerst einhverjum sekúndum of fljótt.

Hvers vegna til stóð að handtaka Atla Frey í stað þess að fylgja honum eftir er spurning sem enn hefur fengist svar við þótt tæpir tíu mánuðir séu liðnir frá því að aðgerðin fór út um þúfur.


Friðrik Smári neitar að tjá sig um hvort hann hafi fengið athugasemdir við störf lögreglufulltrúans utan þess þriggja vikna tímabils sem hann tilgreindi í yfirlýsingu sinni til Vísis í síðustu viku.Vísir/Anton Brink
Endurteknar athugasemdir en fátt um viðbrögð yfirmanna

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur fullyrt að lögreglufulltrúinn, sá er sætir rannsókn og stýrði aðgerðum á vettvangi, hafi ekkert haft með það að gera að aðgerðin fór út um þúfur. Hefur hann vísað til þess að bilun í fjarskiptabúnaði hafi haft eitthvað með það að gera að svo fór sem fór.

Friðrik Smári vill þó ekki tjá sig um hver seinasta skipun hafi verið á vettvangi utan við Hótel Frón áður en Atli Freyr var handtekinn. 

Friðrik Smári hefur staðfest við Vísi að gerðar hafi verið athugasemdir við störf lögreglufulltrúans á þriggja vikna tímabili í mars í fyrra. Spurður hvort samstarfsmenn lögreglufulltrúans hafi ekki einnig gert alvarlegar athugasemdir utan þess tíma neitar Friðrik Smári að tjá sig um það.  



Karl Steinar Valsson var yfirmaður fíkniefnadeildar á árunum 2007 til 2014.Vísir/Ernir
Fullyrti um rannsókn sem aldrei fór fram

Þá fullyrti Karl Steinar Valsson snemma árs 2012, eftir háværar athugasemdir á hendur lögreglufulltrúanum, að hans mál hefði verið rannsakað og enginn fótur reynst fyrir ásökununum.

Engin rannsókn fór fram en Karl Steinar, yfirmaður fulltrúans og náinn samstarfsmaður, skilaði eigin greinargerð vegna málsins. Á grundvelli hennar mátu Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri, og Friðrik Smári að ekkert tilefni væri til þess að óháður aðili væri fenginn til að rannsaka málið.

Vel má velta fyrir sér hvaða dóm Mirjam hefði fengið hefði aðstoð hennar, sem óumdeilt er að hún veitti, leitt til handtöku innflutningsaðila að efnunum. Refsiramminn í málaflokknum er tólf ár en burðardýrið fékk ellefu ára dóm. Atli Freyr, sem veitti gerviefnunum móttöku, hlaut fimm ára dóm.

Málflutningur fer fram í Hæstarétti á miðvikudaginn.

Að neðan má sjá tímalínu um málið frá komu hollensku mæðgnanna til Íslands í apríl.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×