Erlent

Ætla að færa klukkuna til að spara rafmagn

Samúel Karl Ólason skrifar
Rafmagn er af skornum skammti í Venesúela vegna mikilla þurrka.
Rafmagn er af skornum skammti í Venesúela vegna mikilla þurrka. Vísir/EPA
Venesúela gengur nú í gegnum mikla efnahagsörðugleika og hefur Nicolas Maduro, forseti landsins, nú fyrirskipað að klukkur í landinu verða færðar fram á við um hálftíma, til þess að spara orku. Nú í nótt klukkan 2:30 að staðartíma verður breytingin gerð.

Maduro segir að miklir þurrkar hafi leitt til þess að forðaból vatnsaflsvirkjana landsins séu nánast tóm. Opinberir starfsmenn vinna einungis tvo daga í hverri viku og skólar eru lokaðir á föstudögum.

Vísinda- og tæknimálaráðherra Venesúela segir að rafmagnsnotkun á kvöldin og næturnar hafi reynst erfið fyrir dreifikerfi landsins.

„Það verður einfalt að færa klukkuna fram um hálftíma. Það mun gera okkur kleift að njóta meiri dagsbirtu þar sem það verður ekki dimmt jafn snemma,“ hefur AFP fréttaveitan eftir Jorge Arreaza.

Stjórnarandstaða landsins segir að vandinn sé ríkisstjórninni að kenna. Ríkisstjórninni er einnig kennt um matarskort sem og skort á öðrum nauðsynjavörum.

Efnahagur landsins hefur orðið verulega illa úti vegna mikillar lækkunar á olíuverði. Forseti Venesúela hefur kennt efnahagslegum árásum óvina á landið um vandann og segir kapítalista standa að baki árásunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×