Lífið

Æskudraumar Emmsjé Gauta rætast

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Emmsjé Gauti gefur út nýja plötu í næsta mánuði, hefur látið búa til dótakall í sínu líki og vinnur að tölvuleik.
Emmsjé Gauti gefur út nýja plötu í næsta mánuði, hefur látið búa til dótakall í sínu líki og vinnur að tölvuleik. Vísir/Hanna
„Ég er að gefa út nýja plötu 11. nóvember, en hún heitir 17. nóvember, eftir afmælinu mínu – þetta er smá flókið en fólk verður bara að taka því,“ segir Gauti þegar hann er spurður hvers vegna í ósköpunum hann sé að láta útbúa He-Man útgáfu af sjálfum sér.

„Þessi plata er búin að vera í vinnslu síðustu fjóra mánuðina og ég var einhvern veginn að reyna að átta mig á því hvernig ég ætlaði að gefa hana út og þá mundi ég eftir Sticky Records – plötufyrirtækinu sem Finni, eigandi Priksins, stofnaði. Honum leist vel á hugmyndina og þetta verður því fyrsta formlega útgáfan þaðan.

Ég var í vandræðum með að finna nafn á plötuna þangað til Geoff, annar stofnandi Sticky Records, kom með hugmyndina að því að gera dótakall – en sú hugmynd er í raun og veru tilkomin af því að Finni á líka spilasalinn Fredda og þar er gaur sem heitir Viktor – hann rekur fyrirtækið Viktor’s Vintage – og hefur verið að gera svona kalla og selja í Fredda.

Emmsjé Gauta fígúran ásamt nokkrum klassískum dótaköllum. Sitt sýnist hverjum um hversu líkur kallinn er Gauta.
Í framhaldinu fór allt „artworkið“ að snúast í kringum þennan dótakall og þar með kemur þetta nafn, 17. nóvember, sem er afmælið mitt og vísar með kallinum í æskudrauma og minningar. Pakkningar, lógó og eftirvinnsla verða í þessu þema.“

Hvernig er svo ferlið á bak við það að láta breyta manni í dótakall?

„Viktor sem sagt leirar þennan kall, býr til silíkonmót og setur síðan harðplast í það. Þetta er náttúrulega alveg fáránlegt ferli sem ég skil varla hvernig virkar. Kallinn er sem sagt ég, en það er mjög mismunandi hvort fólk fattar það,“ segir Gauti og hlær, „sumir segja að þetta sé ekki neitt líkt mér – en mér finnst þetta bara mjög líkt mér – nema það hversu ógeðslega massaður hann er, en ég er á leiðinni þangað.

Þetta er bara ein vara af mörgum. Fyrir utan að vera að gera þennan kall erum við að gera tölvuleik – sem ég kem með meiri upplýsingar um síðar, bíðið spennt! Ég er ekki alveg búinn að ákveða mig en það verður mögulega bara eitt eintak af kallinum til, sem verður til sölu, en ef við gerum fleiri verða þeir í rosalega takmörkuðu upplagi.“

Platan 17. nóvember verður gefins á netinu og hverri plötu fylgir alls konar aukaefni eins og myndir af ferlinu og af kallinum, textar og fleira. Það verður bara hægt að hlaða henni niður fyrst um sinn á emmsje.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×