Sport

Ældi á brautina þegar hún kom í mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var stór pollur á brautinni eftir Cisiane Lopes.
Það var stór pollur á brautinni eftir Cisiane Lopes. Vísir/EPA
Íþróttafólkið sem keppir á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Peking hikar ekki við að gefa allt sitt í keppnina í Kína.

Hin brasilíska Cisiane Lopes lenti samt illa í því í 20 kílómetra göngunni í nótt en Lopes ætlaði sér að komast í markið hvað sem það kostaði.

Lopes komst í mark, í 29. sæti og átta mínútum á eftir sigurvegaranum, en hún réð ekki lengur við sig þegar hún komst loksins yfir marklínuna eftir 1:36:06  mínútna göngu.

Aðstæður voru mjög erfiðar því það var glaðasólskyn og mjög heitt. Keppnisharka hinnar brasilísku kom henni þó alla leið þrátt fyrir að líkaminn væri við það að gefa sig.

Cisiane Lopes ældi nefnilega á brautina skömmu eftir að hún kom í markið og skildi eftir stóran ælupoll á brautinni.

„Þetta var mjög erfitt og ég lenti í vandræðum með magann," sagði Cisiane Lopes í viðtali við blaðamann Aftonbladet eftir göngurna.

„Það kom samt svo mikið út úr mér en mér líður ágætlega núna," bætti Lopes við.

Cisiane Lopes er 32 ára gömul og var að klára sína fyrstu göngu á heimsmeistaramóti.

Kína vann tvöfaldan sigur í 20 kílómetra göngunni. Hong Liu kom fyrst í mark og landa hennar Xiuzhi Lu rétt á eftir. Hin úkraínska Lyudmyla Olyanovska tók síðan bronsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×