Enski boltinn

Advocaat heldur ekki áfram hjá Sunderland

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dick Advocaat stýrir ekki fleiri félagsliðum.
Dick Advocaat stýrir ekki fleiri félagsliðum. vísir/getty
Þriðja knattspyrnustjórastarfið er oðið laust í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Hollendingurinn Dick Advocaat, sem stýrði Sunderland í síðustu níu umferðum deildarinnar, hefur tilkynnt félaginu að hann snúi ekki aftur á næstu leiktíð.

Þessi 67 ára gamli þjálfari var fenginn til að halda Sunderland uppi, sem hann og gerði, en hann vill ekki vera stjóri Sunderland áfram.

„Þó við séum virkilega vonsviknir skiljum við og virðum ákvörðun hans. Hann hefur haft mikil og góð áhrif á félagið á þeim stutta tíma sem hann var hjá okkur. Við erum honum þakklát,“ segir stjórnarformaður Sunderland, Ellis Short.

Advocaat sagðist í viðtali við Sky Sports nú undir kvöld ekki ætla að þjálfa félagslið oftar. Þeim hluta starfsferilsins væri nú endanlega lokið.

Hann vill þó halda áfram að þjálfa landslið verði honum boðið það, en Advocaat hefur á löngum ferli sínum þjálfað landslið Hollands, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Suður-Kóreu, Belgíu, Rússlands og Serbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×