Enski boltinn

Advocaat: Hópurinn hjá Sunderland er ekki nógu góður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Advocaat skilur Sunderland eftir í næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Advocaat skilur Sunderland eftir í næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar. vísir/getty
Dick Advocaat segir að slakur leikmannahópur Sunderland sé ein ástæða þess að hann sagði starfi sínu sem knattspyrnustjóri liðsins lausu um helgina.

Í samtali í hollenskum sjónvarpsþætti sagði Advocaat að hann hefði ákveðið að hætta sem stjóri Sunderland í síðustu viku, fyrir leikinn gegn West Ham sem var hans síðasti við stjórnvölinn hjá félaginu. Leiknum lyktaði með 2-2 jafntefli en Sunderland leiddi 2-0 eftir 22 mínútur.

„Ég var búinn að taka þessa ákvörðun í síðustu viku en stjórn félagsins bað mig um klára leikinn gegn West Ham og mig langaði að enda þetta með stæl,“ sagði Advocaat sem tók við Sunderland í mars á þessu ári.

Hollendingnum tókst að bjarga Sunderland frá falli úr ensku úrvalsdeildinni og ákvað svo að gera eins árs við félagið, en upphaflega hafði hann ætlað sér að setjast í helgan stein eftir tímabilið 2014-15.

„Það er ekki minn tebolli að standa í fallbaráttu. Mér fannst þetta vera rétti tíminn til að hleypa öðrum að. Ég sé samt ekki eftir því að hafa gert nýjan samning því þetta var frábær reynsla,“ sagði Advocaat en hann skilur við Sunderland í 19. og næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar með aðeins þrjú stig eftir átta leiki.

„Leikmannahópur liðsins var einfaldlega ekki nógu sterkur. Við vissum að það þyrfti að styrkja liðið en stjórnarformaðurinn sagði mér aldrei hversu miklum peningum við gátum eytt í leikmenn,“ sagði Advocaat sem hefur komið víða við á löngum þjálfaraferli.

Meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við stjórastarfið hjá Sunderland eru Sam Allardyce, Sean Dyche og Nigel Pearson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×