Viðskipti innlent

Advania á leið í sænsku kauphöllina

Sæunn Gísladóttir skrifar
Advania er íslenskt félag og með höfuðstöðvar sínar á Íslandi.
Advania er íslenskt félag og með höfuðstöðvar sínar á Íslandi. Mynd/Advania
Stefnt er að skráningu tæknifyrirtækisins Advania í sænsku Kauphöllina árið 2018. Félagið er hins vegar íslenskt og með höfuðstöðvar sínar á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Um 59 prósent af rekstrarhagnaði (EBITDA) Advania varð til á sænska markaðnum árið 2015.  Hjá samstæðunni eru samtals um 1.000 starfsmenn á 20 starfsstöðvum, á Íslandi, í Svíþjóð, í Danmörku og í Noregi. Í ljósi sterkar stöðu félagsins á Norðurlöndum og vaxtamöguleikum þar er stefnt að skráningu félagsins í Kauphöllina í Stokkhólmi á árinu 2018, segir í tilkynningu.  Markmið skráningarinnar sé tvíþætt, annars vegar stuðningur við áframhaldandi þróun og uppbyggingu á Norðurlöndum og hins vegar frekari styrking á eigin fé félagsins.

Að því gefnu að gjaldeyrishöft verði ekki lengur til staðar á árinu 2018 er vonast til að innlendir aðilar muni verða sterkur hluti nýrra fjárfesta í félaginu. Verði hins vegar áfram verulegar takmarkir á fjárfestingarmöguleikum íslenskra fjárfesta á þessum tíma verður skoðað hvaða möguleikar séu í stöðunni í samvinnu við Nasdaq á Íslandi.

Í kjölfar kaupa hóps fjárfesta á Norðurlöndum á ráðandi hlut í félaginu var ákveðið að gefa norrænum lykilstjórnendum kost á að koma inn í hluthafahópinn. Þá verður stefnt að því samfara skráningu í Stokkhólmi á árinu 2018 að allir starfsmenn fái tækifæri til gerast hluthafar í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×